Glataði 15 heyrúllum í krapaflóði

„Það eru um 15 heyrúllur sem glötuðust í þessu krapaflóði en þær lentu í ánni við bæinn og skoluðust síðan í burtu þegar áin ruddi sig í leysingum skömmu síðar,“ segir Bergþór Steinar Bjarnason bóndi í Hjarðarhlíð í Skriðdal. Krapaflóð féll á bæinn í upphafi vikunnar með þessum afleiðingum.

Bergþór Steinar segir að krapaflóðið hafi fallið á bæinn á sunnudagsnóttina eða snemma morguns á mánudag. Heimilisfólkið í Hjarðarhlíð varð ekki vart við þegar flóðið féll. „En það ber á að líta að það var hávaðarok og rigning þegar flóðið féll,“ segir hann.

Krapaflóðið féll á stafla af heyrúllum sem raðað hafði verið upp meðfram hlöðunni við bæinn. Við það tvístruðust rúllurnar og fóru um víðan völl en um 20 þeirra lentu í eða við ánna. Auk þess skemmdist eitt hornið á hlöðunni lítillega.

Fram kemur í máli Bergþórs Steinars að honum hafi tekist að ná nokkrum rúllum af árbakkanum en hinar hafi horfið niður árfarveginn í leysingunum. „Það getur verið að ég finni eitthvað af þeim aftur við árbakkana neðar í ánni," segir hann.

Bergþór Steinar segir að það sé bagalegt fyrir sig að missa þessar heyrúllur þegar svona er liðið á veturinn þar sem heybirgðir hans hafi verið í minna lagi í haust. En hann á von á að hann geti bjargað sér fram á vor með það sem hann á eftir af heyi.

Mynd: Facebook

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.