Gera tillögu um sýnatöku á farþegum úr Norrænu

Aðgerðastjórn almannavarnanefndar á Austurlandi sendi fyrir helgi frá sér tillögur um hvernig standa megi að skimun farþegar sem koma með Norrænu til Seyðisfjarðar og millilandaflugi til Egilsstaða.

Sýnataka er fyrirhuguð á öllum þeim sem koma til landsins frá 15. júní og út árið, ef að líkum lætur. Fyrstu tvær vikurnar verður sýnatakan gjaldfrjáls en eftir það kostar hún 15.000 krónur á mann.

Mest verður álagið á flugvellinum í Keflavík, en einnig hefur þurft að kanna aðstöðu til sýnatöku á varaflugvöllum, þar með talið Egilsstöðum og höfninni á Seyðisfirði, einu höfn landsins með reglulegar farþegasiglingar.

Það hefur aðgerðastjórnin gert síðustu vikur, í ljósi þess að talsvert mun að líkindum mæða á Heilbrigðisstofnun Austurlands (HSA) við verkefnið en einnig lögreglu og fleiri sem aðkomu hafa að eftirliti og umsjón á báðum stöðum, að því er fram kemur í tilkynningu aðgerðastjórnar.

Greiningin var unnin í samráði við stjórnendur Smyril Line vegna Norrænu og ISAVIA vegna flugvallarins. Minnisblað var ritað í kjölfarið með tillögum að framkvæmd sýnatöku. Það var á fimmtudag sent Almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra til skoðunar og meðferðar. Minnisblaðið hefur ekki enn verið gert opinbert.

Í tilkynningu aðgerðastjórnar er áréttað við íbúa fjórðungsins að gæta áfram vel að eigin smitvörnum, að tveggja metra reglunni, handþvotti og sprittnotkun. Sérstök ástæða þykir til að gefa út slíka áréttingu nú þegar ferðamenn eru að nýju farnir að fara um landið og mun fjölga talsvert ef að líkum lætur næstu vikur og mánuði.

Ekki hefur greinst Covid-19 smit á Austurlandi frá 9. apríl. Samkvæmt upplýsingum af Covid.is eru 62 einstaklingar í sóttkví í fjórðungnum.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.