Gengið verður inn um glænýtt anddyri í Fjarðarborg í sumar

Endurbætur á hálfrar aldar gömlu félagsheimili Borgfirðinga, Fjarðarborg, ganga vel að sögn umsjónarmanns framkvæmdanna. Lokið verður við nýtt anddyri hússins að mestu auk stórs hluta efri hæðar hússins áður en sumarið gengur í garð.

Endurbætur á húsnæðinu hafa verið brýnar um nokkurt skeið enda húsið komið til ára sinna, fengið takmarkað viðhald gegnum tíðina auk þess sem það uppfyllir ekki margar þær nútímakröfur sem gerðar eru til samkomuhúsa. Á öllu því skal ráðin bót með framkvæmdunum nú en þær hófust fyrr í vetur.

Gengur sú vinna vel að sögn Óla Grétars Metúsalemssonar, byggingarverkfræðings, þó vissulega hafi eitt og annað komið í ljós sem ekki var gert ráð fyrir í upphaflegum kostnaðaráætlunum. Slíkt þó harla eðlilegt þegar farið er að vinna í eldri húsum á borð við Fjarðarborg.

„Það alltaf svo þegar byrjað er að krukka í gömlum húsum að þá kemur ýmislegt í ljós sem ekki var reiknað með. Það ekkert stórvægilegt en þó aðeins umfangsmeiri aðgerðir en ráð var fyrir gert. Við þurftum til dæmis að brjóta sundir lagnir og þá varð ljóst að tóm vitleysa væri að skipta ekki um þær í leiðinni. Þá hefur smávægilegur leki frá þaki við rennur komið í ljós sem ráða þarf bót á en ekkert alvarlegra en það.“

Trufla ekki starfsemi í sumar

Sem kunnugt er flestum er viðamikil starfsemi í Fjarðarborg yfir sumarmánuðina og verktakar miða sína vinnu við að ljúka þessum fyrstu endurbótum áður en það tímabil gengur í garð að sögn Óla Grétars.

„Við ætlum fyrir sumarið að breyta aðalinngangi hússins. Náum hugsanlega ekki að fullljúka því en förum langleiðina að minnsta kosti. Við verðum við einnig búnir að breyta stiganum á milli hæða og vonandi endurnýja stóran hluta efri hæðar hússins. Það alls ekki ætlunin að vera neitt í vegi fyrir starfseminni þarna innandyra í sumar en hugsanlega reynum við að halda vinnunni áfram utanhúss eitthvað.“

Upprunalega málningin kom í ljós

Eðli máls samkvæmt hefur 50 ára gamalt húsið verið málað oftar en einu sinni og oftar en tvisvar. En upprunalegi guli liturinn fannst samt þegar farið var í að endurnýja klæðingu á hluta hússins.

„Það er rétt að þegar við gerðum skurk í að taka niður gamla steni-klæðingu á húsinu. Þá kom í ljós blaut einangrun og þegar hún var tekin burt kom á kafla í ljós þessi upprunalega heiðgula málning. Annars staðar undir klæðningunni hafði þó verið málað yfir hana.“

Þessi tiltölulega nýlega mynd af félagsheimilinu Fjarðarborg verður brátt ónothæf þegar glænýtt anddyri sér dagsins ljós fyrir sumarið. Mynd GG

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.