Garnaveiki greind í Austfjarðahólfi

Garnaveiki hefur greinst í sauðfé frá Þrándarstöðum á Fljótsdalshéraði. Þetta er í fyrsta skipti sem garnaveiki greinist á svæðinu í rúm 30 ár. Allt fé í hólfinu verður bólusett.

Í tilkynningu MAST segir að sjúkdómurinn hafi uppgötvast eftir að sjö vetra kind á búinu drapst skyndilega og dýralæknir var kallaður til. Strax vaknaði grunur um garnaveiki og var það staðfest eftir rannsóknir.

Í tilkynningunni segir að ekki sé vitað hvernig sjúkdómurinn hafi borist að Þrándarstöðum en líklegt sé að hann hafi verið í nokkur ár að búa um sig þar.

Óhjákvæmilegt sé að hefja strax bólusetningu á öllu fé í varnarhólfinu, sem er frá ósum Lagarfljóts að Grímsá en þaðan er lína dregin um Sandfell og Áreyjatind í Reyðarfjörð. MAST vinnur að öflun faraldsfræðilegra upplýsinga og í kjölfar þeirra verður tekin ákvörðun um nákvæmlega hve víðtæk bólusetningin þarf að vera.

Mikilvægt er að bændur í hólfinu láti héraðsdýralækni vita ef þeir eigi fullorðnar kindur sem hafi verið að dragast upp undanfarin misseri. Þá er brýnt fyrir þeim að auka smitvarnir og flytja ekki fé milli bæja, að minnsta kosti meðan útbreiðsla veikinnar er rannsökuð. Upplýsinga- og fræðslufundur verður haldinn þegar frekari upplýsingar liggja fyrir.

Síðasta staðfesta tilvik veikinnar í hólfinu var á Ásgeirsstöðum, sem eru skammt frá, árið 1986.

Garnaveiki er ólæknandi smitsjúkdómur, sem leggst á öll jórturdýr; sauðfé, geitur, nautgripi og hreindýr. Orsökin er lífseig baktería af berklaflokki. Hún veldur bólgum í mjógörn og oft einnig í langa, ristli og lifur.

Sýklarnir berast út með saur og geta lifað mánuðum saman í umhverfinu, s.s. við gripahús og afréttargirðingar, í sláturúrgangi og í líffærum skepna sem drepast út um haga. Sýking verður um munn með saurmenguðu fóðri og vatni. Meðgöngutími í fé er 1-2 ár eða lengri. Hægt er að halda veikinni niðri með bólusetningu lamba á haustin og gefur ein bólusetning ævilangt ónæmi.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.