Gæti verið skynsamlegt fyrir sveitarfélögin að leggja húsbyggjendum til stofnframlög

Sveitarfélög landsins gætu þurft að skoða það alvarlega að styrkja húsbyggjendur til að afþýða húsnæðismarkinn segir hagfræðingur. Hann telur tækifæri fyrir landsbyggðirnar í hækkandi húsnæðisverði þéttbýlisins.


„Það þarf einhver að taka á sig tíu milljónir í hreinan kostnað fyrir 100 fermetra íbúð,“ sagði Konráð S. Guðjónsson, hagfræðingur í greiningardeild Arion-banka, á málþingi Veljum Vopnafjörð fyrir skemmstu.

Konráð benti á að þar sem byggingarkostnaður á landsbyggðinni sé mun hærri en söluverð fasteignanna fæli það áhugasama frá því að byggja. „Hver vill byggja við slíkar aðstæður? Til þess þarf annað hvort einhvern sem niðurgreiðir eða einhvern með hugsjón.“

Þar með sé kominn á markaðsbrestur sem geti réttlætt inngrip opinberra aðila á markað. Hann sagði að sveitarfélögin gætu þurft að skoða hvort þau vilji koma með stofnframlög til húsbyggjanda en varaði við að það gætu orðið háar upphæðir. „Það þarf að ræða hvort þetta væri skynsamleg skattfés.“

Hvaða yfirburði hefur Vopnafjörður?

Konráð ræddi meðal annars um tækifæri landsbyggðarinnar og vann út frá kenningum hagfræðinnar að hagnaður verði til með viðskiptum og sérhæfingu. Til að efla byggðina þurfi að spyrja hvar Vopnafjörður hafi hlutfallslega yfirburði yfir aðra.

En Vopnafjörður gæti haft forskot. „Hvað með það að vera lítill afskekktur staður með ósnortna náttúru í kring?“ spurði Konráð.

Hann benti á að fækkun í dreifbýli væri ekki séríslenskt vandamál, það væri viðvarandi um allan heim. Hins vegar séu líka vandamál í borgunum sem fólk vilji forðast, svo sem mengun og ös. Með tækninýjungum sé hægt að vinna mörg störf hvar sem er.

Á höfuðborgarsvæðinu sé húsnæðismarkaðurinn þannig að margir horfi eftir öðrum kostum. „Markaðurinn þar er skelfilegur. Ég gæti selt litlu kjallaraíbúðina sem ég keypti fyrir, keypt mér einbýlishús úti á landi í staðinn og átt afgang. Þetta er ekki vandi sem leysist í bráð svo einhverjir eru farnir að hugsa út á land.“

En húsnæðismarkaðurinn úti á landi sé ekki endilega auðveldur þar sem á honum sé lítið framboð. „Það getur verið sniðugt að skoða einhvers konar niðurgreiðslu í ljósi náttúrunnar og borgarvæðingarinnar.“

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.