Fyrstu göngur gengu þokkalega í dag þrátt fyrir þoku

„Þetta gekk alveg þokkalega hjá okkur í dag þar til að þoka skall á okkur um hálf þrjú leytið. Því gátum við ekki smalað allan daginn,“ segir Þorvarður Ingimarsson fjallskilastjóri Fljótsdælinga í samtali við Austurfrétt en hann fór við fimmta mann í göngur í morgun. Þetta eru fyrstu göngur á Austurlandi og óvenjusnemma á ferðinni. Réð veðurspáin miklu um það.

Í máli Þorvarðar kemur fram að þeir hafi m.a. náð að smala Snæfellið og Þrælahálsinn. „Höfuðmálið hjá okkur var að koma féinu niður vegna veðursins sem er að skella á okkur,“ segir Þorvarður. „Menn verða að passa upp á sitt fé.“

Aðspurður um hvenær þeir leggja í hann á ný segir Þorvarður að það geti orðið strax í fyrramálið ef möguleiki er og veður leyfir. „Annars höfðum við hugsað okkur að fara af stað aftur eftir helgina,“ segir hann.

Eins og kunnugt er af fréttum hefur verið gefin út appelsínugul veðurviðvörun á Austurlandi á morgun og hinn. Reiknað er með að það snjói í fjöll. „Það er ekki gott að smala ef grafningar og skorur eru fullar af snjó. Því er mikilvægt að koma féinu niður sem fyrst,“ segir Þorvarður.

Mynd: Facebook

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.