Fyrsti fundur í kjaradeilu álversstarfsmanna hjá ríkissáttasemjara

Fyrsti fundur hjá ríkissáttasemjara í kjaradeilu AFLs Starfsgreinafélags og Rafiðnaðarsambands Íslands við Alcoa Fjarðaál var haldinn í dag. Mest ber á milli í viðræðum um laun og vinnutíma.

Það voru samninganefndur félaganna sem vísuðu málinu til ríkissáttasemjara þann 18. desember síðastliðinn eftir að upp úr viðræðum slitnaði í byrjun þeirrar viku.

Fundurinn í dag var haldinn í gegnum fjarfund en á þriðjudag hefur verið boðaður vinnufundur. Að sögn Hjördísar Þóru Sigurþórsdóttur, formanns AFLs, verður framhald viðræðna metið að þeim fundi loknum.

Fundurinn á þriðjudag verður haldinn á Egilsstöðum og kemur ríkissáttasemjari austur af því tilefni. Langt mun vera síðan ríkissáttasemjari boðaði síðast fund utan höfuðborgarsvæðisins.

Kjarasamningarnir sem um ræðir runnu út í lok febrúar og hafa verið lausir frá 1. mars. Viðræður hófust um það leyti áður en deiluaðilar sömdu um sumarfrí. Þráðurinn var svo tekinn aftur upp í haust.

„Þetta endaði svo með því rétt fyrir jól að við sáum ekki ástæðu til að halda áfram á þeim nótum sem þá voru,“ segir Hjördís. Aðspurð segir hún að helst beri í milli í viðræðum um laun og vinnutíma. 

Hluta deilunnar, sem snéri að túlkum um úttekt orlofs, var vísað í vor vísað til félagsdóms. Úrskurður félagsdóms barst loks skömmu fyrir jól og var Alcoa Fjarðaáli í vil. Hjördís segir það mál hafa snúist um túlkun á eldri kjarasamningi og því ekki verið hluti viðræðnanna nú en blandast inn í þær. Hún segir málinu þar með lokið, deiluaðilar hafi verið sammála um að vísa málinu til félagsdóms og una niðurstöðunni.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.