Fyrsta wasabi uppskeran að verða klár

Fyrsta uppskeran af wasabi ræktun í gróðurhúsi Barra í Fellabæ er að verða tilbúin. Þegar hefur verið ákveðið að auka við ræktunina fyrir næsta ár.


„Við höfum verið með ræktun í hálfu húsi og erum að taka hinn helminginn í notkun. Eftir það verðum við með heilt hús, 2000 fermetra, í ræktun,“ segir Johan Sindri Hansen, framkvæmdastjóri wasabi ræktunarinnar.

Um ár tekur að rækta plöntuna upp í nýtingarstærð og um þessar mundir er fyrsta uppskeran tilbúin. Eftir að plantan er fullvaxin er hægt að skera af henni vikulega.

Gert er ráð fyrir að sáð verði í hinn helming hússins í september og plönturnar fullvaxnar eftir ár. „Við sjáum fram á að eftirspurnin sé það mikil að við getum bætt í.

Það er erfitt að áætla hve mikið magn við fáum en við gerum ráð fyrir að uppskeran dugi okkur í 5-6 staði. Við verðum á Fiskmarkaðinum, Grillmarkaðinum og nokkrum stöðum erlendis.“

Í sumar hefur verið lögð vinna í markaðsstarf og heitir fyrirtækið nú Jurt ehf. og verða vörurnar seldar undir merkjum Nordic Wasabi.

Þá hefur verið auglýst eftir ræktunarstjóra til fyrirtækisins sem er heilsársstarf. „Umsóknarfresturinn er til 10. september og eftir það förum við yfir umsóknirnar. Þegar við verðum búnir að ráða verður hægt að fara að uppskera.“

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.