Fyrsta viðgerðin á nýju veiðarfæraverkstæði í Neskaupstað

Nýtt veiðarfæraverkstæði Hampiðjunnar í Neskaupstað hefur hlotið eldskírn sína eftir að norskt loðnuveiðiskip kom þangað með illa rifna nót. Rekstrarstjóri segir nýju aðstöðuna hafa flýtt fyrir flóknu verki.

Frá þessu er greint á vef Hamiðjunnar. Það var norska loðnuveiðiskipið Rav sem kom inn á mánudagsmorgni með illa rifna nót sem skipstjóri og áhöfn reiknuðu með að marga daga tæki að gera veiðihæfa á ný, enda hurfu heilu bálkarnir burt úr nótarammanum.

Ljóst var að viðgerðin væri snúið og var því kallað á liðsauka úr Reykjavík. Að kvöldi mánudags var einnig ákveðið að lagfæra nótakassann á skipinu og voru starfsmenn G. Skúlasonar fengnir til þess verks. Unnið var fram á kvöld alla daga vikunnar og lauk viðgerðinni á föstudagskvöldi.

Hampiðjan flutti í nýtt húsnæði á síðasta ári og segir Jón Einar Marteinsson, rekstrarstjóri, að það hafi reynst vel í þetta skiptið.

„Þetta var í fyrsta skipti sem við tökum hringnót inn á verkstæðið til viðgerðar. Það var ánægjulegt að sjá að öll tæki og aðstaða virkaði mjög vel. Það er ljóst að verk eins og þetta hefði tekið mun lengri tíma á gamla verkstæðinu,“

Mynd: Hampiðjan

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar