Fyrsta húsið á fótboltavellinum svo gott sem tilbúið

Byggingafyrirtækið MVA er um þessar mundir að ljúka við byggingu fyrsta íbúðarhússins sem rís á fyrrum knattspyrnuvelli Seyðfirðinga. Framkvæmdastjórinn vonast til að uppbygging á svæðinu haldi áfram.

„Það er nánast allt tilbúið. Við erum að ganga frá inni í húsinu og síðan á eftir að mála að utan og ganga frá lóðinni. Það er stefnt að lokaúttekt eftir tvær vikur og við eigum að skila af okkur húsunum um næstu mánaðamót,“ segir Magnús Baldur Kristjánsson, framkvæmdastjóri MVA.

Fjórar íbúðir eru í húsinu, tvær þriggja herbergja og tvær fjögurra herbergja. Leigufélagið Bríet, sem er í opinberri eigu, kaupir íbúðirnar til útleigu. Malbikun götunnar sjálfrar eru fyrirhugaðar í lok júní.

Magnús Baldur segir bygginguna hafa gengið vel. Þegar farið var af stað í fyrra voru tafir á meðan lóðin var gerð klár en miðað vel. MVA hafi fengið heimafólk í vinnu og samstarfið verið gott við það. Viljayfirlýsing liggur fyrir milli MVA og Bríetar um að skoða fleiri byggingar á Austurlandi gegn því að báðir aðilar séu sáttir við samstarfið á Seyðisfirði.

Völlurinn besta byggingarlandið


Magnús Baldur er sjálfur uppalinn Seyðfirðingur og hann viðurkennir að sérstakt sé að sjá gamla íþróttavöllinn tekinn undir aðra notkun. Stór fótbolti sem stóð við innganginn að vellinum er enn á sínum stað.

„Það er sérstakt að völlurinn sé ekki lengur í hjarta bæjarins en að auki er skipulagið annað er í nærliggjandi götum, húsin snúa þvert á miðað við það. Þetta er hins vegar besta byggingarlandið og það öruggasta. Aðeins innar er mjög djúpt niður á fast. Ég vona að það verði framhald á byggingum þarna þannig þau hús sem nú eru að rísa þarna standi ekki ein næstu árin,“ segir hann.

Verkefni á Norðurlandi


Um sumarið hjá MVA segir Magnús Baldur að fyrirtækið sé með fleiri minni verkefni og færri stærri en í fyrra. Af stærstu verkefnum má nefna nýja brú yfir Gilsá í Skriðdal, þjónustuhús við Hengifoss, einingar í stækkun leikskólans á Eskifirði, vinnu með Þ.S. Verktökum við Kröflulínu og frágang ofanflóðavarna í Lambeyrará á Eskifirði. Í síðustu viku lauk uppsteypu á fjölbýlishúsi sem Jöklar byggja við Bláargerði á Egilsstöðum.

Þá er MVA að ljúka við stækkum frystihússins á Þórshöfn fyrir Ísfélag Vestmannaeyja en fyrirtækið hefur fengið fleiri verkefni á Norðurlandi. „Það er engin einingaverksmiðja á Akureyri og þess vegna er horft í auknu mæli austur. Við komum að Skógarböðunum í fyrra og erum að framleiða forsteypta stiga í fjölbýlishús á Akureyri.“

Veðurstöð á Bjólfinum


Síðsumars verður haldið áfram byggingu veðurstöðvar fyrir Veðurstofu Íslands á Bjólfi. Bíða þarf þess að fært verði upp í rúmlega 1.000 metra hæð og þá gefst nokkurra vikna gluggi í verkið. „Við drógum einingar þangað upp í fyrra. Síðan er eftir að steypa þakplötu og gólfplötu. Þetta er mjög spennandi verkefni,“ segir Magnús Baldur en MVA framleiddi annað eins hús sem sett var upp á Skagatá.

Magnús Baldur tók við starfi framkvæmdastjóra MVA í síðasta mánuði. Stefán Þór Vignisson, einn stofnenda og eigenda MVA, færði sig í staðinn yfir í verkefnastjórn.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.