„Fyrr myndi ég höggva af mér höndina en kjósa Íslensku þjóðfylkinguna“

Fulltrúar fjögurra flokka í Norðausturkjördæmi útiloka samstarf við Íslensku þjóðfylkinguna við myndun ríkisstjórnar eftir kosningar og saka hana um hatursfullan boðskap. Fulltrúi hennar segir hana ekki „flokk haturs.“


Þetta kom fram á framboðsfundi sem Austurfrétt/Austurglugginn efndu til í Valaskjálf á Egilsstöðum á miðvikudagskvöld. Úr sal var spurt um hvort framþjóðendur hefðu lesið bókina Þjóðarplágan íslam sem send var öllum þingmönnum fyrr á árinu, hvað þeir vildu gera gegn uppgagni íslam í Evrópu og afstöðu til nýrra útlendingalaga sem taki gildi um áramót. Einnig var spurt með hverjum þeir vildu helst starfa í ríkisstjórn og hvort einhver flokkur kæmi alls ekki til greina í samstarfi.

Fulltrúar fjögurra framboða: Samfylkingar, Vinstri grænna, Pírata og Bjartrar framtíðar útilokuðu alfarið samstarf með Íslensku þjóðfylkingunni.

„Það hefur einn flokkur útilokað okkur sem er Sjálfstæðisflokkurinn og ég ætla að taka mér það bessaleyfi að útiloka þjóðfylkinguna. Ég hef skömm á málflutningi fulltrúa hans hér og hans manna. Ég les mikið en hef gefist upp á að lesa tvær bækur um ævina, önnur þeirra var Mein Kampf og hin Þjóðarplágan íslam,“ sagði Einar Brynjólfsson, leiðtogi Pírata.

Ekki til í þetta

„Björt framtíð hefur sýnt að samstarf snýst um vinnubrögð. Við erum í meirihluta í 6-7 sveitastjórnum á landinu og vinnum með öllum flokkum nema framsókn, það hefur æxlast þannig. Við viljum hins vegar ekki flokk eins og Íslensku þjóðfylkinguna sem alið hefur á hatri,“ sagði Preben Jón Pétursson.

„Ég nenni ekki að ræða svona mál eins og andúð á íslam eða þjóðernum. Ég er ekki til í þetta. Við eigum að vera alþjóðasinnuð. Við þurfum á heiminum að halda. Ég ætla ekki að vera Bjartur í Sumarhúsum, það er klárt.“

Óbeit á málflutningnum

Logi Einarsson frá Samfylkingunni sagði flokkinn vilja vinna með öðrum sem aðhylltust norræna þjóðfélagsgerð. Hann sagðist „ekki styðja“ samtarf við Íslensku þjóðfylkinguna.

„Þetta eru umræður sem ég vonaði að rötuðu ekki inn í íslenska kosningabaráttu á næstu árum eða áratugum.“ Hann sagðist hafa búið í Noregi í sex ár og þaðan bærust „miklar tröllasögur um að allt væri að fara til andskotans“ og vísaði til kannana að stuðningur við innflytjendur væri mestur í Osló það sem þeir væru flestir. Í hans huga gæddi fjölbreytnin mannlífið. „Ég hef óbeit á þessum málflutningi, hef ekki lesið bókina og ætla ekki að lesa hana.“

Skömm á bókinni

Steingrímur J. Sigfússon, oddviti Vinstri grænna, sagði orðrétt í framsöguræðu sinni: „Fyrr myndi ég höggva af mér höndina en kjósa Íslensku þjóðfylkinguna.“

Aðspurður sagðist hann „játa það hálffeiminn að hafa flett bókinni á norsku. Ég hef skömm á bókinni. Kynþáttafordómar eiga ekkert erindi í íslensk stjórnmál.“

Hann bætti einnig við að VG vildi vinna með flokkum til vinstri og af miðjunni.

Vilja taka á móti fleirum

Þorsteinn Bergsson frá Alþýðufylkingunni sagðist ekki ætla að lesa Þjóðarpláguna. Alþýðufylkingin hefði „engar hugmyndir gegn múslimum eða komu þeirra“ eða útbeiðslu íslamskrar trúar á Íslandi.

Þá tiltók hann einnig stuðning við komu flóttamanna. „Við verðum að taka við fleirum, við erum vel aflögufær. Það er vont ástand í heiminum. Ég er viss um að Akureyringar hafa ekki séð eftir að taka á móti flóttamönnum í fyrra.“

Hann sagðist vilja starfa með öllum sem vildu styðja fylkinguna til góðra verka og hún myndi styðja aðra til slíks hins sama.

Opin fyrir öllu

Sigurður Eiríksson frá Dögun sagði að ekki „þyrfti að ræða“ um jafnrétti gagnvart kynhneigð, trú eða öðru slíku. Dögun vildi starfa með öllum sem vildu vinna að jöfnuði.

Hildur Bettý Kristjánsdóttir frá Viðreisn sagði framboðið flokk sem „vildi fjölbreytileikann“ og Njáll Trausti Friðbergsson frá Sjálfstæðisflokknum sagðist bíða kosningaúrslitanna sem segðu vilja þjóðarinnar. „Við erum opin fyrir öllu í pólitíkinni.“

Ekki værukær gagnvart breytingum

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson varaði við öfgahyggju. „Ég hef ekki séð og ekki lesið bókina en við getum ekki leyft okkur að vera værukær varðandi öfgahyggju og breytingar í Evrópu. Til þess þurfum við meðal annars að gera íslenska löggæslu í stakk búna til að takast á við slíka þróun.

Annars lendum við í því sem meðal annars hefur gerst á Norðurlöndunum að til verða flokkar sem gera út á öfgarnar. Ég held að mikið sé til þess vinnandi en til þess þurfum við að geta rætt þessa hluti í pólitíkinni.“

Ekki flokkur haturs

Til fundarins var boðað með tölvupósti með tíu daga fyrirvara og aftur ítrekað nokkrum dögum fyrir fund. Öllum framboð sem boðað höfðu framboð á landvísu eða kjördæminu fengu póstinn. Skilyrði voru sett um að fulltrúar væru frambjóðendur í Norðausturkjördæmi og fyrir fundinn væri búið að tilkynna fullmannaðan lista í kjördæminu.

Tíu framboð svöruðu póstum Austurfréttar, þar á meðal Flokkur fólksins sem tilkynnt hafði lista en fulltrúi hans gat ekki mætt vegna veikinda.

Íslenska þjóðfylkingin svaraði ekki póstum Austurfréttar en fulltrúi hennar, Jón Valur Jensson, gaf sig fram við fundarstjóra eftir að fundurinn hefði verið settur og óskaði eftir þátttöku, sem orðið var við.

Á meðan fundi stóð var staðfest að Jón Valur hafði tilkynnt framboð í þriðja sæti í Reykjavíkurkjördæmi suður. Í hádeginu í dag var ljóst að þjóðfylkingin hefði ekki lagt fram lista í Norðausturkjördæmi.

Jón Valur virti ekki ítrekaðar bjölluhringingar fundarstjóra um að 3:30 mínútna ræðutími hans í lokasvörum væri liðinn. Þegar komið var 45 sekúndur fram yfir var honum vísað úr ræðustól af ritstjóra Austurfréttar/Austurgluggans sem skipulagði fundinn með áminningu um að hann væri ekki frambjóðandi í kjördæminu.

Í ræðu sinni talaði Jón Valur meðal annars um að flokkur hans væri „ekki flokkur haturs“ eða kynþáttafordóma sem hann væri „sakaður um að ósekju.“ Því til stuðnings nefndi hann að margir í forustusveit fylkingarinnar ættu væru nátengdir fólki af erlendum uppruna auk þess sem það ætti sæti á listanum.

 

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.