Fyrirkomulag á niðurgreiðslu flugfargjalda innanlands kynnt í dag

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu og sveitarstjórnarráðherra, hefur boðað til blaðamannafundar í flugstöðinni á Egilsstöðum eftir hádegi. Tilefni fundarins er fyrirkomulag niðurgreiðslu á flugfargjöldum.

Niðurgreiðslan er ætluð til að létta undir með íbúum á landsbyggðinni til að sækja þjónustu sem er staðsett á höfuðborgarsvæðinu. Rétt á henni eiga íbúar í ákveðinni fjarlægð frá Reykjavík en búast má við að í dag skýrist nánar hver skilyrðin eru fyrir nýtingu. Þá mun einnig koma í ljós hversu mikil niðurgreiðslan verður á hvern fluglegg.

Niðurgreiðslan var í raun staðfest með samþykkt samgönguáætlunar í sumar og fjárlaga í lok síðasta árs. Hún er eitt af stefnumálum ráðherra og var hluti af stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar.

Gert er ráð fyrir að í ár muni hver íbúi, sem rétt á til niðurgreiðslu, geta nýtt sér eina ferð fram og til baka frá Reykjavík en þær verði þrjár framvegis. Niðurgreiðslan nær aðeins til ferða í einkaerindum.

Dæmi eru um sambærilegar niðurgreiðslur víða í Evrópu en fyrirmyndin er einkum sótt til Skotlands. Hún hefur því gengið undir heitinu „skoska leiðin“ en nýtt nafn verður kynnt í dag.

Fundurinn hefst klukkan 13:00. Hægt verður að fylgjast með honum í beinni útsendingu á Facebook-síðu ráðuneytisins.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.