„Fyrir einhverja lukku erum við ekki í lífsbjörgun“

Sífellt kemur betur í ljós hve miklu mátti muna að enn verr færi þegar stór skriða féll úr Botnabrún milli Búðarár og Ljósár á Seyðisfirði á föstudag. Bærinn var rýmdur í kjölfarið en í dag fengu íbúar í hluta hans að snúa heim aftur. Verið er að koma kerfum bæjarins aftur í samt lag.

„Það var stöðufundur í morgun. Ástandið í fjallinu hefur klárlega batnað eins og sést með að horfa upp í það.

Verkefni morgunsins hefur verið framhald af gærdeginum við að aðstoða þá sem eru að koma stofnkerfum bæjarins, frá- og aðveitu og rafkerfum í gang,“ segir Jens Hilmarsson, varðstjóri hjá lögreglunni á Austurlandi sem fer fyrir vettvangsstjórn á Seyðisfirði.

Veitukerfi að komast í gang

Búið er að koma rafmagni á frystihúsið en vélarnar þar eru komnar í gang. Þá tókst starfsmönnum Rarik um klukkan tvö i dag að koma rafmagni á hús björgunarsveitarinnar og önnur í kring, en þau björguðust naumlega þegar skriðan kvíslaðist í kringum þau. Björgunarsveitarmenn á bát í smábátahöfninni horfðu upp í fjallið meðan starfsmenn Rarik athöfnuðu sig.

„Það er komið rafmagn á þau hús sem hægt er að koma á, út hjá Sæbóli og þar. Það er einn rafmagnskassi á kafi í flóðinu sem komast þarf í. Við reynum ekki við hann í dag,“ segir Jens.

Rýmingu var aflétt á hluta bæjarins klukkan hálf þrjú í dag. Í grófum dráttum er um að ræða svæðið norðan Fjarðarár en svæðið er þó stærra en það. „Ég bið bæjarbúa að fara að engu óðslega og við gerum þetta í rólegheitum.“

Metnaður að ganga vel um eigur fólks

Áfram hefur verið skipulagt hvernig hægt verði að hreinsa flóðasvæðið. „Það verður flókið og tekur tíma. Við munum leggja okkur fram um að ganga af tillitssemi um persónulegar eigur bæjarbúa sem misstu hús sýn. Þær eru á víð og dreif. Við munum leggja metnað í að safna þessum munum saman og varðveita þá þannig fólk fái eitthvað af eigum sínum til baka.

Við gerum allt sem í okkar valdi stendur til að líf bæjarbúa komist í eðlilegt horf, ef eitthvað er hægt að kalla eðlilegt eftir svona hamfarir,“ segir Jens.

Enn að kortleggja sprungur

Þegar horft er upp í efri brún skriðunnar sem féll á föstudag sjást miklar sprungur ganga á fleiri en einu stað út úr henni, til dæmis í áttina að annarri smáskriðu sem fór af stað. Merkilegt virðist því að ekki hafi stærra svæði farið af stað.

„Þetta er eitt af því sem er verið að meta. Sérfræðingar Veðurstofunnar eru að skoða allar þessar sprungur, kortleggja og bera saman við myndir og sprunguteikningar fyrri tíma. Ég er bara leikmaður í þessum efnum en tek eftir því að vinna Veðurstofunnar er mjög fagleg og við erum mjög ánægðir með hvernig hún þjónustar okkur.“

Vettvangsstjórn á Seyðisfirði er nú í slökkvistöðinni en var áður í húsi björgunarsveitarinnar sem skriðan lenti að hluta til á. Þeir sem voru þar í húsi sluppu því naumlega.

„Við vissum ekki hvar við ætluðum að setja okkur niður eftir að flóðið setti okkur út úr Sæbóli. Þetta lítur út fyrir að vera ákjósanlegur staður í augnablikinu og svo er aðgerðastjórnin á Egilsstöðum. Síðan getum við talað um að það hefur verið tillaga lögreglu í á fjórða ár að byggja við ferjuhúsið þannig að unnt sé að vera með vettvangsstjórn í svona atburðarás þar í til þess búnu húsi.“

Varlega verður farið inn á flóðasvæðin

Fáir eru á ferli á Seyðisfirði en í kringum kjörbúðina hefur verið björgunarsveitafólk á vappi með hunda. „Þeir koma frá Eyrarbakka. Þessir hundar verða notaðir sem öryggisatriði þegar við förum að vinna á flóðasvæðunum ef eitthvað gerist þar þá.

Ég vil ítreka að fyrir einhverja guðs lukku er þetta ekki lífsbjargandi aðgerð. Við erum heppin að hafa komist í gegnum þessar hamfarir án þess að vera í þannig aðgerð. Við reynum að hafa góða stjórn á öllu sem gerist núna og ætlum okkur aldrei að stefna neinum í hættu, hvorki íbúum né fólki sem vinnur hérna.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.