Fulltrúar morgundagsins vinna að aukinni umhverfisvitund

„Mér þætti það allavega fáránlegt að menntastofnun sem að hefur það hlutverk að mennta fulltrúa morgundagsins beiti sér ekki fyrir því að berjast gegn einu stærsta vandamáli sem mannkynið stendur frammi fyrir sem að eru gróðurhúsaáhrifin,“ segir Sigurður Ingvi Gunnþórsson, formaður nemendaráðs Verkmenntaskóla Austurlands, en skólinn hefur skráð sig í verkefnið „Skólar á grænni grein“ að frumkvæði nemenda, en verkefnið miðar að því að skólinn hjólti umhverfisviðurkenninguna Grænfánann.



Skólar á grænni grein er alþjóðlegt verkefni til að auka umhverfismennt og styrkja menntun til sjálfbærni í skólum. Skólar ganga í gegnum sjö skref í átt að aukinni umhverfisvitund og sjálfbærni. Þegar því marki er náð fá skólarnir að flagga Grænfánanum til tveggja ára og fæst sú viðurkenning endurnýjuð ef skólarnir halda áfram góðu starfi.

Grænfáninn er umhverfisviðurkenning sem nýtur virðingar víða í Evrópu sem tákn um árangursríka fræðslu og umhverfisstefnu í skólum. Skrefin sjö eru ákveðin verkefni sem efla vitund nemenda, kennara og annarra starfsmanna skólans um umhverfismál. Verkefnin eru bæði til kennslu í bekk og til að bæta daglegan rekstur skóla. Þau styrkja grunn að því að tekin sé ábyrg afstaða og innleiddar raunhæfar aðgerðir í umhverfismálum og sjálfbærni innan skólans. Jafnframt sýnir reynslan að skólar sem taka þátt í verkefninu geta sparað talsvert í rekstri.


Þarf að halda umræðunni á lofti

Það voru nemendur skólans sem áttu frumkvæði að því að taka þátt í verkefninu og segir Sigurður Ingvi Gunnþórsson, formaður nemendaráðs, að þeir telji mikilvægt að huga vel að umhverfinu og minnka sóun eins mikið og mögulegt er.

„Ég tel mikilvægt að nemendur öðlist aukna vitund á umhverfisvernd og ef skólinn byrjar að leggja sig fram við það að endurvinna og gera skólann umhverfisvænni þá eykur það líkurnar á því að nemendur endurvinni og hugi að umhverfisvernd í sínu daglega lífi.“

Sigurður telur að umhverfisvitund sé vaxandi í samfélaginu. „Á langflestum þeim heimilinum sem ég kem inná er sorpið flokkað og endurunnið. Það þarf að tala um hversu nauðsynlegt það er að flokka og endurvinna sem og að halda því á lofti hversu slæm áhrif sóun og mengun hefur á jörðina og hversu stórt vandamál þetta raunverulega er.“

Ljósmynd: Lilja Guðný Jóhannesdóttir 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.