Fullkomið brúðkaup frumsýnt í kvöld, jafnframt eina sýningin

Ákveðið hefur verið að flýta frumsýningu á leikritinu Fullkomið brúðkaup um einn dag og verður leikritið því frumsýnt í kvöld. Er þetta jafnframt eina sýningin þar sem mjög ólíklegt er að fleiri sýningar verði á leikritinu. Eins og kunnugt er munu allar sviðssýningar falla niður frá og með morgundeginum vegna hertra sóttvarnarreglna.


Sólveig Heiðrún Stefánsdóttir segir að prufusýning eða“ generalprufa“ á leikritinu var áformuð í kvöld en henni verður breytt í frumsýningu.

„Svo skellum við bara í lás í ljósi þessarar nýju sóttvarnarreglna,“ segir Sólveig Heiðrún. „Það er mjög ósennilegt að fleiri sýningar verða á þessu verki.“

Fram kemur í máli Sólvegar Heiðrúnar að sýningin í kvöld sé boðssýning fyrir vini og velunnara Leikfélags Fljótsdalshéraðs og því ekki úr mörgum öðrum miðum að spila.

„Við munum taka leikritið upp og sýna það á netinu síðar,“ segir hún.

Aðeins 18 gestir munu geta séð leikritið í kvöld þar sem gera verður ráð fyrir tæknimanni við upptöku á verkinu og starfsmanni.

„Það eru einhver sæti laus fyrir borgandi gesti en annars munum við endurgreiða öllum sem hafa keypt sér miða hingað til,“ segir Sólveig Heiðrún.

Fram kemur í máli hennar að samt sem áður hafi það verið gott fyrir félagsmenn leikfélagsins að hafa unnið að og sett þetta leikrit upp.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.