FSN tók við gjöfum að andvirði tæpum tólf milljóna króna

Vegleg gjafamóttaka fór fram á Fjórðungssjúkrahúsinu í Neskaupsstað í desember síðastliðnum þar sem veittar voru gjafir að andvirði 11,9 milljóna króna.



Hefur þetta verið nánast árlegur viðburður og í fyrra var tekið saman yfirlit um gjafir til Heilbrigðisstofunar Austurlands, 2012, 2013 og 2014, en þær voru samtals að verðmæti 113 milljóna króna.

Þar af var andvirði 96 milljóna til FSN og var endurnýjun á tölvusneiðmyndatæki (CT), stærsti einstaki hluti þeirra gjafa. Nam sú gjöf alls 45 milljónum, en tækið var endurnýjað árið 2013.

Fulltrúar gefenda afhentu forstöðulækni FSN, eða hlutaðeigandi deildarstjóra, gjafabréf vegna gjafanna og voru þau tæki sem komin voru í hús til sýnis í gjafamóttöku, en önnur voru sýnd á myndum, eða útskýrð nánar.

Valdimar Hermannsson, þáverandi rekstrarstjóri FSN, þakkaði í lok gjafamóttöku fulltrúum gefenda innilega fyrir ómetanlegan stuðning við heilbrigðisþjónustu á Austurlandi og hafði það eftir læknum sem koma til FSN, að þar væri tækjabúnaður til mikillar fyrirmyndar.

Þær gjafir sem um ræðir eru:

• Fimm rafdrifin sjúkrarúm, með náttborðum, dýnum og göflum, alls að verðmæti 3,7 milljónir króna. Er þá búið að endurnýja öll sjúkrarúm FSN. Gefandi: OÚN - Olíusamlag útgerðarmanna í Neskaupstað.

• Ný og sérhönnuð fæðingarlaug, alls að verðmæti 2,5 milljónir króna. Verið er að endurhanna fæðingarstofu FSN og er þetta endurnýjun á hornbaðkari. Gefandi: SÚN - Samvinnufélag útgerðarmanna í Neskaupstað.

• Tvö fullkomin bylgjutæki fyrir endurhæfingardeild FSN (hljóðbylgju og rafsegulbylgju), alls að verðmæti 1,2 milljónir króna. Um er að ræða endurnýjun á eldri tækjum. Gefandi: SÚN - Samvinnufélag útgerðarmanna í Neskaupstað.

• Þjálfunarhjól fyrir rúmliggjandi, til endurhæfingar eftir aðgerðir, ásamt 2 „dopplerum“, sogtæki fyrir eyru og fleira því tengt, alls að verðmæti 1,5 milljónir króna. Gefandi: Líknarfélagið Hosurnar, sem er félag starfsmanna FSN.

• Hlutdeild í blóðkornateljara fyrir rannsóknarstofu FSN, ásamt rafstillanlegri göngugrind og hlutdeild í "Hreiðri" og fleira, alls að verðmæti 3 milljónir króna. Gefandi: Hollvinasamtök FSN.

 

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.