Frjálsíþróttir: Þrír Íslandsmeistaratitlar í hús

Austfirskir keppendur unnu til þrennra verðlauna og sex verðlauna alls á Íslandsmóti 15-22ja ára í frjálsíþróttum um helgina. Þjálfari hópsins segir að gaman hafi verið að fylgja samheldnum hópi eftir undanfarin ár.


„Við vorum að uppskera eftir sumarið þrátt fyrir ógeðslegt veður,“ segir Lovísa Hreinsdóttir, þjálfari um mótið sem haldið var á Laugardalsvelli.

Mikael Máni Freysson vann hástökk og þrístökk pilta 18-19 þar sem hann stökk annars vegar 1,82 metra og hins vegar 13,24 metra. Mikael Máni fékk einnig silfurverðlaun í langstökk þar sem hann stökk 6,35 metra.

Helga Jóna Svansdóttir féll gullverðlaun í þrístökki stúlkna 18-19 ára með stökki uppi á 11,17 metra. Að auki fékk hún silfurverðlaun í 100 metra hlaupi þar sem hún hljóp á tímanum 13,52 sek.

Daði Þór Jóhannsson náði bronsi í þrístökki pilta 16-17 ára með stökki upp á 12,25 metra. Auk þeirra þriggja kepptu Almar Aðalsteinsson og Steingrímur Örn Þorsteinsson einnig á mótinu.

Þessi hópur hefur fylgst að á frjálsíþróttamótum undanfarin ár. „Ég er stolt af því að þessi hópur haldi sig alltaf meðal þeirra bestu í sínum aldursflokki. Það hefur skipt þau máli að hafa hvert annað, það er erfitt að standa í þessu einn. Þau ná vel saman á æfingum.“

Hluti hópsins stendur hins vegar á tímamótum enda algengt að Austfirðingar flytji af svæðinu að loknum framhaldsskóla. Bæði Máni og Helga Jóna útskrifuðust síðasta vor. „Vonandi náum við að halda þeim sem lengst. Það hefur skipt máli að hafa fyrirmyndir fyrir yngri iðkendur.“

Að sögn Lovísu er nokkuð bil niður í næstu kynslóð frjálsíþróttakrakka að austan. „Við eigum flotta 12-13 ára krakka sem geta átt framtíðina fyrir sér. Vonandi bætist við þann hóp þegar við hefjum vetraræfingar í næstu viku.“

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.