Föstudagurinn var langur hjá björgunarsveitunum

Björgunarsveitir frá Vopnafirði, Fljótsdalshéraði og úr Mývatnssveit aðstoðuðu um þriðja tug bíla sem lentu í vandræðum vegna veðurs og vondrar færðar á Möðrudalsöræfum á föstudagskvöld.

„Föstudagurinn langi stóð undir nafni,“ segir Adam Eiður Óttarsson, björgunarsveitarmaður úr Jöklum á Jökuldal.

Félagar úr þeirri sveit voru kallaðir út klukkan 20:50 á föstudagskvöld vegna bíla í vanda á Möðrudalsöræfum. Björgunarsveitarbílar og fólk frá björgunarsveitunum Jöklum, Héraði, Vopna á Vopnafirði og Stefáni í Mývatnssveit fóru á vettvang.

Jöklar tóku svæðið frá vegamótum Vopnafjarðarvegar og austur úr. Á þessu svæði voru sextán bílar sem þurfti að aðstoða. Vopni og Stefán aðstoðuðu bíla sem voru í vanda annars staðar og fylgdu þeim ýmist til Vopnafjarðar eða í Möðrudal. Alls munu tæplega 30 bílar hafa notið aðstoðar á föstudagskvöld.

Adam Eiður segir ekki aftakaveður hafa verið á Fjöllunum en vandamálið verið fljótt að vinda upp á sig. „Veðrið var ekkert í líkindum það sem það verður verst en það var töluverður mikill snjór og mikið af ferðafólki sem þýðir illa búnir bílar og óvanir ökumenn.

Það eru þekktir skaflar á leiðinni og það þarf ekki nema að einn bíll missi hjól út í kant og festist til að vandamálið vindi fljótt upp á sig. Eftir 30 mínútur er kominn skafl í kringum þann bíl,“ segir Adam Eiður.

Fengið var ruðningsbíll upp á Fjöllin til að liðka fyrir aðgerðum. Jöklar fylgdu síðan sínum hópi niður á Hérað. Adam Eiður segir hafa verið mikilvægt að ná öllum bílunum til byggða þannig að auðveldara væri að opna fjöllin þegar veðrið gekk niður.

Hann segir aðgerðirnar á föstudag þó litlar samanborið við ástandið fyrir nokkrum árum síðan. Það hafi breyst til batnaðar þegar Vegagerðin fór að loka vegum fyrr þegar útlit var fyrir vont veður eða erfiðar aðstæður.

Björgunarsveitarmenn voru síðan komnir til síns heima um klukkan hálf fimm um nóttina.

Af Möðrudalsöræfum á föstudagskvöld. Mynd: Adam Eiður Óttarsson


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.