Flugævintýrið Fly Me To The Moon hefst á Djúpavogi

Mynd- og tónlistarsýningin Fly Me To The Moon verður opnuð í Tankinum á Djúpavogi annað kvöld (laugardag) kl. 20. Um er að ræða samstarfssýningu þeirra Birgis Sigurðssonar myndlistarmanns og Odds Garðarssonar tónlistarmanns.

Birgir Sigurðsson segir að þessi sýning eigi sér töluverðan aðdraganda en að honum hafi lengi langað til að setja upp svona sýningu í Tankinum enda um sérstakt og heillandi rými að ræða.

„Í grunninn bý ég til farartæki sem í þessu tilviki er flugvél búin til úr bílpörtum,“ segir Birgir. „Fólk notar svo ímyndunarafl sitt til að fljúga með henni hvert sem það vill þannig að um bæði andlega og veraldlega upplifun verður að ræða. Tónlist Odds er hinn andlegi hluti af sýningunni.“

Þeir Birgir og Oddur hafa unnið töluvert saman en samvinna þeirra nær aftur til ársins 2003 með sýningunni Gult ljósfar á Ljósanótt í Reykjanesbæ. Er þessi sýning í Tankinum sú fjórða í röðinni

Fram kemur í máli Birgir að þeir hafi unnið að þessari sýningu í töluverðan tíma eða allt frá því að hann vissi að Tankurinn væri til. Það hafi hann uppgötvað fyrir tilviljun þegar hann var að flakka milli stöðva á sjónvarpinu hjá mömmu sinni á Akureyri og stoppaði við N4. Þar var Þór Vigfússon að tala um Tankinn í þættinum Að austan.

„Við Þór erum saman í Myndhöggvarafélaginu í Reykjavík og spurði ég Þór flótlega hvort ég gæti ekki sýnt í Tankinum sem er algjörlega sniðinn fyrir ljósaskúlptúra,“ segir Birgir. „Niðurstaðan er þessi sýning.“

Birgir hefur unnið við myndlist samhliða rafvirkjavinnu síðustu 20 árin og hefur haldið fjölda sýninga en er að mestu sjálfmenntaður í myndlist. Fyrir átta árum stofnaði hann 002 Gallerí, sem er 63 fermetra íbúðin hans í Hafnarfirði. Galleríið hefur haldið 33 myndlistarsýningar með 100 samtímalistamönnum.

Oddur Garðarsson starfaði sem þyrluflugvirki hjá Landhelgisgæsluni en meðfram því hefur hann numið tónsmíðar og samið lög og tónverk Hann spilar einnig með hljómsveitinni Hrókunum.

Mynd: Flugævintýrið í mótun á Djúpavogi.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.