Fljótsdalur: Búskaparhæfar jarðir eiga að vera setnar

Sveitarstjórn Fljótsdalshrepps átelur meðferð kirkjujarðarinnar á Valþjófsstað eftir að prestssetrið var lagt af þar. Jörðin var auglýst og henni úthlutað til ábúðar í mánuðinum.

Þetta kemur fram í bókun sem samþykkt var á síðasta fundi sveitastjórnar. Þar segir að „Kirkjumálasjóður og Íslenska Þjóðkirkjan hafi að nokkru brugðist samfélagsskyldu sinni með því að taka greiðslumark og hlunnindi af jörðinni og auglýsa nú jörðina án skilyrða um fasta búsetu.“

Prestssetrið var lagt af haustið 2014 en jörðin þá leigð til ábúðar. Sá ábúandi sagði upp leigunni í vetur og var jörðin auglýst á ný um miðjan júní. Í auglýsingu kemur fram að ekki sé gert ráð fyrir að leigutaki reisi varanleg mannvirki eða fjárfesti á annan hátt. Framleiðsluréttur jarðarinnar í sauðfé fylgir ekki né heldur hlunnindi, svo sem hreindýraarður.

Í bókun hreppsnefndarinnar er lögð áhersla á að lögheimilisfesta og föst búseta verði á Valþjófsstað. Jafnframt er skorað á eigendur og umráðamenn annarra jarða í dalnum sem ekki eru setnar að auglýsa þær til leigu eða tryggja á annan hátt að þar búi fólk með fasta búsetu og lögheimilisskráningu. Þetta kemur fram í umfjöllun vikublaðsins Austurgluggans í síðustu viku.

Gunnþórunn Ingólfsdóttir, oddviti Fljótsdalshrepps, segðir að það sé samfélaginu mikilvægt að fólk búi þar og starfi, því sé ekki gott að Kirkjumálasjóður skuli ekki hafa sett það sem skilyrði að föst búseta yrði á jörðinni. „Þetta er grunnatriði við að byggja upp samfélag, þess vegna er mjög miður að Kirkjumálasjóður hafi ekki sett þetta skilyrði.“

Síðan er búið að úthluta Valþjófsstað. Gunnþórunn segir nýja leigutaka ætla að hafa fasta búsetu og lögheimili á jörðinni. „Ég vona bara að ályktunin hafi haft áhrif og tekið hafi verið tillit til okkar sjónarmiða við úthlutunina.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.