Fljótsdalshérað: Betri afkoma en reiknað var með

Afkoma af rekstri sveitarfélagsins Fljótsdalshéraðs árið 2016 var jákvæð um 256 milljónir. Tekjur sveitarfélagsins voru hærri en áætlaðar var og bæjarstjóri segir áhugaverða vaxtarsprota í atvinnulífinu.


Rekstri sveitarfélaga er skipt í tvennt og má segja að í A-hluta séu lögboðin verkefni sem fjármögnuð eru með skatttekjum en B-hlutanum verkefni eða félög í eigu sveitarfélaganna sem treysta á sértekjur.

Afkoma A-hlutans hjá Fljótsdalshéraði var jákvæð um 178 milljónir og fór skuldahlutfall hlutans niður fyrir 150%. Samkvæmt lögum skulu skuldir sveitarfélaga ekki nema meira en 150% af tekjum.

Fljótsdalshérað hefur löngum verið skuldsett en stefnt er á að skuldahlutfall sveitarfélagsins verði komið undir 150% árið 2019. Á íbúafundi fyrir skemmstu sagði Björn Ingimarsson, bæjarstjóri, fátt í kortunum sem myndi breyta því. „Það ríkir stöðugleiki og ekkert sem segir að við séum í vandræðum.“

Hátt veltuhlutfall til að mæta skuldum

Veltufé frá rekstri í fyrra nam alls 680 milljónum eða 17%. Hlutfallið er eitt hið hæsta á landinu. „Mörgum þykir þetta hátt hlutfall en við þurfum að framlegðina háa því sveitarfélagið er skuldsett. Það er hins vegar ekki í neinum vandræðum með að standa við skuldbindingar sínar í dag.“

Hann sagði sveitarfélagið hafa þurft að taka dýr yfirdráttarlán til að fjármagna sig til skemmri tíma. Um óverulegar fjárupphæðir sé að ræða en þau lán verði varla endurfjármögnuð fyrr en skuldaviðmiðinu hafi verið náð. Heildarskuldir sveitarfélagsins eru 181% af tekjunum í dag. Skuldirnar voru 8,3 milljarðar um síðustu áramót og höfðu lækkað um 460 milljónir á árinu.

Fræðslumálin dýrust

Tekjur sveitarfélagsins árið 2016 voru tæpir fjórir milljarðar króna, þar af voru 3,5 milljónir í A-hlutanum. Útsvarstekjur voru 1,9 milljarðar og framlög úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga 1,1 milljarður. Björn sagði hærri tekjur helstu skýringu þess að útkoma ársins hefði verið betri en ráð var fyrir gert.

Rekstrargjöld voru 2,9 milljarðar, þar af voru laun 1,8 milljarðar. Fræðslumál voru stærsti málaflokkurinn, reksturinn þar kostaði 1,8 milljarða en þar á eftir voru æskulýðs- og íþróttamál sem kostuðu 400 milljónir.

Íbúar sveitarfélagsins voru 3490 um áramót en bæjarráð fagnaði því á fundi sínum í gær að íbúarnir væru orðnir yfir 3500. Íbúafjölgunin kallar meðal annars á fjölgun leikskólaplássa, sem Björn sagði forgangsmál. Ráðist verður í kostnaðarmat á viðbyggingu leikskólans Hádegishöfða í Fellabæ á næstunni. Það sé sennilega stærsta framkvæmdin sem liggi fyrir sveitarfélaginu.

Þá sagði Björn að ýmsir áhugaverðir vaxtarsprotar væru í atvinnulífinu, svo sem ræktun Wasabi í gróðurhúsum Barra og Ylströndin við Urriðavatn.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.