Fjölbreyttar jólavörur austfirskra kvenna

Auglýsingar á jólagjöfum frá fyrirtækjum sem rekin eru af austfirskum konum hafa vakið talsverða athygli en þær endurspegla fjölbreytta starfsemina. Formaður Tengslanets austfirskra kvenna (TAK) segir skipta máli að sýna hve sterkar austfirskar konur séu.

„Okkur fannst mikilvægt að sýna fram á hve sterkar konur eru á svæðinu og hve góða hluti þær eru að gera. Þær framleiða, selja vörur og gera hluti sem skipta máli fyrir samfélagið,“ segir Heiðdís Halla Bjarnadóttir, formaður TAKs.

Hátt á annan tug austfirskra kvenna í rekstri og framleiðslu taka þátt í auglýsingum félagsins þar sem komið er á framfæri vörum frá þeirra fyrirtækjum. „Við vildum sýna gróskuna sem er meðal þeirra og í raun sendu þær okkur bara brot af því þær hafa upp á að bjóða,“ segir Heiðdís Halla.

Hún segir viðtökurnar við átakinu hafa verið góðar. „Þetta er í fyrsta sinn sem þetta er gert og viðbrögðin hafa verið mjög góð. Bæði er þátttakan í átakinu góð en líka viðbrögð þeirra sem hafa séð auglýsingarnar. Fólk segir frábært að við bendum á þetta og að þarna hafi það fengið hugmyndir að jólagjöfum. Þetta er líka mikilvægt til að hvetja fólk til að versla í heimabyggð og styðja við rekstur á svæðinu.“

TAK var stofnað í byrjun árs 2006 til að auka samstöðu og samvinnu meðal kvenna á Austurlandi. Heiðdís Halla var kjörin formaður félagsins á aðalfundi þess í sumar.

„Ég er nýflutt heim eftir 22ja ára fjarveru, vildi koma mér aftur inn í samfélagið og þetta tækifæri bauðst. Þetta er félagsskapur sem hefur þróast í gegnum árin og er gaman að fylgjast með. Það eru allar konur velkomnar til okkar hvort sem þær eru með eigin rekstur eða ekki.“

Samkomutakmarkanir hafa sett strik í reikning félagsstarfsins í ár og þurft að fella niður viðburði vegna þess. Tíminn hefur hins vegar verið nýttur í að hanna nýtt merki fyrir félagið auk þess sem unnið er að nýrri heimasíðu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar