Fjarðabyggð komin undir skuldaviðmiðið

Skuldir Fjarðabyggðar námu 148% af tekjum sveitarfélagsins í lok síðasta árs. Þar með er sveitarfélagið komið undir lögboðið 150% mark eftir mikla vinnu.


Þetta kemur fram í ársreikningi Fjarðabyggðar fyrir síðasta ár. Reikningurinn verður ræddur á bæjarstjórnarfundi síðar í dag og kynntur formlega.

„Við ætluðum að ná þessu takmarki fyrir árslok 2015 og það náðist,“ sagði Snorri Styrkársson, fjármálastjóri sveitarfélagsins, á íbúafundi á Fáskrúðsfirði á þriðjudagskvöld.

Áfram er gert ráð fyrir að skuldirnar lækki. Hann varaði samt við mikilli bjartsýni. „Það breytist ekki annað en að við höfum uppfyllt skyldurnar. Skuldirnar lækka hægt og greiðslubyrðin. Við erum enn að borga af mjög hraðri uppbyggingu.“

Áfram fer mikið af tekjum sveitarfélagsins í að borga niður skuldir. Mest eru þetta jafngreiðslulán sem þýðir að afborganir af þeim eru jafnar þar til þau eru uppgreidd.“

Tekjuspá sé ýmsum annmörkum háð. Nýafstaðin loðnuvertíð var erfið þótt úr henni rættist í lokin. Þá er óljóst hvernig gengur á makrílveiðum í sumar.

Á sama tíma vex launakostnaður sveitarfélagsins. Milli áranna 2014 og 2015 hækkaði hann um 13% með nýjum kjarasamningum og sagði Snorri útlit fyrir álíka hækkun í ár þar sem ósamið er við ýmsa hópa innan sveitarfélagsins. Um helmingur tekna sveitarfélagsins á hverju ári fer í launakostnað.

Stefna sveitarfélagsins hefur verið að greiða niður skuldir og taka ekki ný lán fyrir rekstri. Snorri sagði að mögulega yrði tekið lán fyrir stórri afborgun af öðru láni í haust en það er ekki enn ákveðið.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.