Fjarðabyggð í plús yfir heildina en mínus af lögbundnum verkefnum

65 milljóna tap varð af rekstri A-hluta sveitarfélagsins Fjarðabyggðar í fyrra en þeim hluta er gjarnan lýst sem lögboðnum verkefnum sem skatttekjur eiga að standa undir. Hátt í 400 milljóna hagnaður varð hins vegar á samsteypunni. Í B-hlutanum eru fjárhagslega sjálfstæð fyrirtæki sem að mestu eru í eigu sveitarfélagisns og eiga að standa undir sér með sértekjum, meðal annars Hafnarsjóður og veitufyrirtæki.


Þetta kemur fram í ársreikningi síðasta árs sem tekinn var til umræðu í bæjarstjórn nýverið. Í tilkynningu með reikningnum segir að reksturinn sé samkvæmt áætlunum utan þess að lífeyrisskuldbindingar hækkuðu um 160 milljónir meira en áætlað var.

Rekstrarkostnaður A-hluta var 4,65 milljarðar króna en rekstrarkostnaðurinn 4,3 milljarðar og hagnaðurinn 358 milljónir fyrir afskriftir og afborganir af lánum.

Laun eru stærstu hluti útgjaldanna, 2,6 milljarðar. Hjá Fjarðabyggð starfa 433 starfsmenn í 336 stöðugildum. Í ársreikningnum kemur fram að laun og launatengd gjöld bæjarstjóra og bæjarstjóra nemi 53,6 milljónum.

Í tilkynningunni er haft eftir Páli Björgvini Guðmundssyni að rekstur A-hlutans þurfi að bæta og ávallt sé verið að skoða leiðir til þess. Að sama skapi sé mikilvægt að bjóða upp á góða þjónustu á sem flestum sviðum í sveitarfélaginu.

Mikill árangur hefur náðst í skuldaniðurgreiðslu sveitarfélagsins og þær verið greiddar hraðar niður en fyrstu áætlanir gerðu ráð fyrir. Skuldaviðmið samstæðunnar nam 128% í lok síðata árs en það má ekki vera hærra en 150% samkvæmt sveitastjórnarlögum.

Talsverðar fjárfestingar voru hjá Fjarðabyggð í fyrra, alls 930 milljónir. Lokið var við nýjan leikskóla í Neskaupstað og bætt við hafnarmannvirki.

Páll Björgvin segist reikna með að rekstur ársins 2017 verði í jafnvægi þótt sterkt gengi krónunnar geti sett strik í reikninginn þar sem atvinnureksturinn í sveitarfélaginu tengist mest allt útflutningi.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.