Fimm ný tilfelli á tveimur dögum

Sjö virk Covid-19 smit eru á Austurland, samkvæmt nýjustu tölum. Fimm ný smit hafa verið staðfest síðustu tvo daga.

Þetta kemur fram í nýjum tölum á Covid.is. Staðan eystra var þokkaleg á föstudag, þá voru tvö virk smit og níu einangrun, en þeim hafði fækkað nokkuð í vikunni.

Í gær voru staðfest tvö ný smit og í kjölfarið voru 21 í sóttkví. Samkvæmt tölum frá í morgun hafa þrjú virk smit bæst við og fimm í sóttkví.

Sjö eru þá alls með smit, en til samanburðar má nefna að alls greindust átta einstaklingar með smit á Austurlandi í mars og apríl. Í sóttkví eru 26.

Skimað í kringum jákvæða einstaklinga

Guðjón Hauksson, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Austurlands, segir að fyrir helgi hafi tveir einstaklingar með einkenni komið í sýnatöku og reynst jákvæðir. Í kjölfarið hafi tuttugu manns, sem tengdust þeim, verið settir í sóttkví.

Sýni voru tekin úr þeim öllum og þrír þeirra reyndust með smit. Guðjón segir að enn sé unnið að smitrakningu og mögulega verði tekin fleiri sýni.

Hann brýnir fyrir fólki að huga að smitvörnum og hafa varann, jafnvel þegar vægustu einkenni gera vart við sig. „Það skiptir máli að þeir sem eru með einkenni haldi sig heima og láti skima sig, jafnvel fólk telji sig ekki vera með Covid-19. Það eru ekki allir sem fá mikil einkenni,“ segir Guðjón.

Mikilvægt að allir taki ábyrgð

Aðgerðastjórn almannavarna á Austurlandi hefur ekki viljað gefa upp hvar á Austurlandi hinir smituðu séu. Engin breyting er þar á í dag enda skiptir máli að fólk alls staðar hafi varann á. „Við höfum dæmi um allt land um smit sem ekki virðast tengd. Það er því hægt að gera ráð fyrir að smit séu víða,“ segir Guðjón.

Hann ítrekar að hver og einn hugi að sínum persónulegu smitvörnum, haldi tveggja metra fjarlægð, þvoi sér vel um hendur og noti spritt.

Rekstraraðilar almennt með varnir í lagi

Samkvæmt tilkynningu lögreglunnar á Austurlandi hefur hún heimsótt staði um allt umdæmið til að kanna hvernig sóttvörnum sé háttað. Alls hafi verið heimsóttir 34 staðir og almennt hafi varnir verið til fyrirmyndar og því megi hrósa rekstraraðilum.

Þar segir að smávægilegar ábendingar hafi verið gerðar á nokkrum stöðum vegna merkinga, þremur stöðum hafi verið bent á að bæta úr aðgengi vegna sameiginlegra áhalda, svo sem vatns- og kaffikönnum og hnífapara og á tveimur stöðum var rekstraraðilum gert að lagfæra smitvarnir og merkingar. Þessum athugasemdum verður fylgt eftir með heimsóknum síðar.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.