Fernir tvíburar í 33 barna leikskóla

Fernir tvíburar verða á leikskólanum Brekkubæ á Vopnafirði frá og með næstu áramótum og hefur börnum á leikskólanum þá fjölgað um sex frá því síðasta vetur.



Brekkubær er þriggja deilda leikskóli en síðastliðinn vetur voru aðeins tvær þeirra starfræktar vegna þess hve börnin voru orðin fá.

Sandra Konráðsdóttir er leikskólastjóri á Brekkubæ. „Þegar ég byrjaði hér sem leikskólastjóri árið 2007 voru 53 börn í leikskólanum og árið 2008 var þriðju deildinni bætt við. Síðan þá hefur verið sífelld fækkun og í fyrravetur var ákveðið að loka einni deildinni þar sem börnin voru aðeins orðin 27. Lengi vel leit út fyrir að ekkert barn kæmi til okkar í haust en það breyttist svo aldeilis,“ segir Sandra, en níu börn byrjuðu á Brekkubæ í haust og þrjú bætast svo við um áramót.

„Það sem er líka afar skemmtilegt er að eftir áramót verða fernir tvíburar á Brekkubæ en það er ansi hátt hlutfall í aðeins 33 barna leikskóla. Þar af eru tvenn pör systkini sem sækja skólann frá Bakkafirði,“ segir Sandra.


Unga fólkið vill koma heim

Sandra segir að tvö börn séu fædd á Vopnafirði það sem af er ári og fjórar fæðingar séu áætlaðar á því næsta. „Þetta eru einstaklega gleðileg tíðindi, sem og sú staðreynd að unga fólkið virðist hafa aukinn áhuga á því að flytja til okkar á ný. Fólk vill koma heim aftur en það hefur strandað á atvinnu og húsnæði. Það breytist vonandi núna með bolfiskvinnslunni hjá Granda en með henni verður trygg atvinna allt árið um kring. Vissulega vantar þó atvinnutækifæri fyrir þá sem hafa menntað sig í ýmsum greinum en það kemur vonandi með þessari jákvæðu þróun.“

Sandra segir dásamlegt að búa á Vopnafirði og hvetur ungt fólk til þess að kynna sér kosti þess. „Hér er gott að vera, sérstaklega með börn. Við búum vel að þeim, erum með mjög góðan leik- og grunnskóla þar sem hlutfall fagmenntaðra er hátt. Auk þess er frelsið ómetanlegt og börnin fá að vera þau sjálf.“


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar