Ferðafélag Fljótsdalshéraðs fóstrar Brúardalaleið næstu þrjú árin

Ferðafélag Fljótsdalshéraðs mun næsta þrjú árin hið minnsta taka Brúardalaleið í nokkurs konar fóstur sem merkir að félagið mun þennan tíma sjá um að lagfæra, viðhalda og stika þennan sífellt vinsælli hálendisveg. Góður stuðningur hefur fengist til verksins úr samfélagssjóði Alcoa Fjarðaáls.

Vegspottinn sá er einn allnokkra munaðarlausra slóða norðan megin Kárahnjúkalóns en hann er formlega á forræði sveitarfélagsins Múlaþings. Honum lítið sem ekkert verið sinnt né heldur merktur sem hefur valdið því að töluverð spjöll hafa verið unnin á viðkvæmu svæðinu með utanslóðaakstri.

Góður styrkur en meira þarf til

Þórhallur Þorsteinsson, framkvæmdastjóri ferðafélagsins, segir að verkefnið hefjist strax í sumar en þá verði hafist handa við að grjóthreinsa slóðina og stika en fjögurra milljóna króna framlag úr samfélagssjóði Alcoa dugi til að koma verkefninu vel af stað.

„Það kemur sannarlega að góðum notum og auk þess mun hópur sjálfboðaliða frá Alcoa aðstoða okkur næstu þrjú árin við að koma þessum vegi í betra horf. En við þurfum meira fjármagn til en þetta og höfum leitað til bæði Landsvirkjunar og Vegagerðarinnar með framlög en ekkert komið út úr því enn sem komið er. Þetta verkefni er orðið nokkuð brýnt því þarna er töluverð umferð ferðafólks síðla sumars og fer vaxandi ár frá ári.“

Þórhallur segir markmiðið að vinnan hefjist kringum miðjan júlí og standi vel fram í ágústmánuð. Hvað verði svo gert í framhaldinu ráðist fyrst og fremst af því hvort hægt verði að fá meira fjármagn til verksins.

Mynd úr fórum ferðafélagsmanna frá síðasta sumri sýnir vel hvernig ferðafólk fer nánast sínar eigin leiðir um svæðið með tilheyrandi spjöllum og skemmdum.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.