Falla frá eldi við Háubakka

Fiskeldi Austfjarða ætlar að falla frá eldissvæði undir Háubökkum, innarlega í Seyðisfirði. Fyrirtækið hefur sótt um leyfi til að ala 10 þúsund tonn af laxi í firðinum.

Frummatsskýrsla eldisins hefur vakið talsverð viðbrögð en í gær voru afhentir listar með undirskriftum um 280 Seyðfirðinga þar sem þess er krafist að fallið verði frá eldishugmyndunum.

Þá bókaði heimastjórn Seyðisfjarðar athugasemdir á fundi sínum í síðustu viku, annars vegar vegna samráðsleysis, hins vegar við eldissvæðið undir Háubökkum, meðal annars vegna þess að það gæti takmarkað afhafnasvæði skemmtiferðaskipa.

Samkvæmt frummatsskýrslunni var svæðið undir Háubökkum ætlað sem varasvæði en aðalsvæðin þrjú, þar sem Fiskeldi Austfjarða áformar eldi, eru í Selstaðavík, Sörlastaðavík og Skálanesbót.

Vernda siglingaleiðir

Strax daginn eftir fund heimastjórnarinnar sendi fyrirtækið erindi á heimastjórnina þar sem upplýst er það það muni falla frá eldissvæðinu við Háubakka. Það verði gert formlega með frávikstillögu við frummatsskýrsluna.

„Næsta eldissvæði við bæinn verður þá við Sörlastaðavík sem er sunnanvert í firðinum og úr augsýn við íbúðakjarnann. Mun þá nást fram að skipalægi fyrir skemmtiferðaskip er varið og ásýndaráhrif frá bænum verða engin eða hverfandi.

Skipulag annarra eldissvæða er hannað út frá fyrirliggjandi gögnum, m.a. gervihnattaupplýsingum, um siglingaleiðir um fjörðinn og er tekið tillit til þeirra. Hafa ber í huga að einungis tvö eldissvæði verða í notkun á hverjum tíma svo áhrif eldis eru þannig hlutfallslega minni en ella.

FA mun leggja sig fram um að auka atvinnustigið i bænum og reyna eftir fremsta megni að styðja við aðra atvinnustarfsemi í bænum,“ segir í erindinu.

Málið verður á dagskrá sveitarstjórnar Múlaþings í dag sem tekur fyrir bæði bókun heimastjórnarinnar og umhverfis- og framkvæmdanefndar auk umsagnar sveitarfélagsins um frummatsskýrsluna.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.