Eva Mjöll rekstrarstjóri FSN til hausts

Eva Mjöll Þorfinnsdóttir hefur verið ráðin tímabundið í starf rekstrarstjóra Fjórðungssjúkrahússins í Neskaupstað (FSN). Stjórnendur HSA segja horfa til betri vegar í læknamálum sjúkrahússins. Þeir telja mikilvægt að renna frekari stoðum undir heilsugæsluna í Fjarðabyggð með byggingu sameiginlegrar miðstöðvar á Reyðarfirði.


Valdimar O. Hermannsson lét af störfum rekstrarstjóra um áramót eftir um tíu ára starf. Staðan var auglýst fyrir áramót og bárust tíu umsóknir en tveir drógu sínar strax til baka.

Ráðningarferlið var unnið með Capacent og var niðurstaða þess að einn væri langhæfastur. Sá kom austur og skoðaði aðstæður og þáði starfið en hætti við viku síðar eftir að hafa boðist betur launað starf í Reykjavík.

Á opnum fundi um heilbrigðismál í Neskaupstað á þriðjudagskvöld sagði Kristín Björg Albertsdóttir, forstjóri HSA, frá því að þeir sem næst hæfastir hefðu verið hefðu einnig sett fram kröfur sem stofnunin gat ekki uppfyllt.

Ráðningu var því frestað en Eva Mjöll, sem starfað hefur sem launafulltrúi, gegnir því tímabundið. Auglýsa á stöðuna aftur í vor og ráða í hana frá 1. september.

Illa gengur að fá lyflækni

Skurðlæknirinn Jón Sen tók um áramótin við stöðu forstöðulæknis en við hlið hans starfar Robert Wojciechowski svæfingalæknir og í byrjun mars er von á Jarek Kaczmarek til starfa sem deildarlæknir. Hann er ekki ókunnugur Austurlandi eftir að hafa unnið hjá Bechtel og HSA áður. Þá er búið að ganga frá afleysingum fyrir svæfinga- og skurðlæknana fram í tímann.

Illa hefur hins vegar gengið að fá lyflækni til starfa. Áfram á að auglýsa eftir slíkum en sá möguleiki verður einnig skoðaður að ráða nokkra sem myndi hóp og skipti stöðunni á milli sín í hlutastarfi.

„Þjónustan veltur á þeim mannskap sem er til staðar og læknamálin skipta þar miklu máli. Það er miður að það vanti lyflækni en þrátt fyrir það er staðan ekki slæm. Við höfum skurðlækni hér go ekki hvaða mann sem er heldur mann sem gæti vel valið að vera á Landsspítalanum.

Það er líka frábært að hafa traustan svæfingalækni og að tekist hafi að manna næstum allar vikur í afleysingum. Það þýðir að við höfum þessa fæðingarvakt, sem einnig er borin uppi af ljósmæðrum og öðru fagfólki. Þetta er einn af þeim þáttum sjúkrahúsþjónustunnar sem fólk hefur í huga þegar það velur eða velur ekki að búa á stöðum.

Heilsugæslan þarf líka að vera til staðar og það er áhyggju efni að okkur hefur ekki tekist að tryggja hana. Ástandið var lengi gott á Egilsstöðum en er það ekki lengur, frekar en öðrum stöðum.“

Veigra sér við að koma í fámennið

Viðvarandi læknaskortur hefur verið á Austurlandi en stjórnendur HSA sögðu á fundinum að skorturinn væri ekki eingöngu bundinn við fjórðunginn. „Menn vilja vera þar sem fjörið er mest og veigra sér við að koma í fámennið,“ sagði Kristín. „Við heyrum frá fólki í þessum geira að það vilji ekki vera í einmenningsumdæmum,“ sagði Jón Björn Hákonarson, forseti bæjarstjórnar.

Sumarið 2013 gerðu stjórnendur HSA og bæjarstjórn Fjarðabyggðar viljayfirlýsingu um að berjast fyrir byggingu nýrrar sameiginlegrar heilsugæslumiðstöðvar í Reyðarfirði, meðal annars til að búa til einn sameiginlegan kjarna þar sem læknar hefðu stuðning hver af öðrum. Lítið hefur miðað í byggingu þeirrar stöðvar. en vonast er til að hún létti einnig álagi af læknum á Norðfirði.

„Eitt af því sem fylgir því að vera sjúkrahúslæknir í Neskaupstað er að auk þess að vera alltaf á vakt fyrir sína sérgrein er að þurfa líka að dekka það sem við köllum bæjarvaktina, það er að segja heilsugæsluna, sem þýðir gríðarlegt álag. Við fáum ekki fagfólk nema hafa einn góðan og sterkan vinnustað,“ sagði Pétur Heimisson, framkvæmdastjóri lækninga hjá HSA.

„Þetta snýst vissulega um lækna en það er ekki slæmt að vera með þrjár af fjórum stöðum mannaðar eftir einn og hálfan mánuð,“ sagði Valdimar O. Hermannsson, fráfarandi rekstrastjóri FSN.

„Það héldu sumir að öllu væri lokið þegar Björn Magnússon hætti. Svo er ekki en það hefur þurft að hafa meira fyrir að manna stöðurnar.“

Viðræður við geðlækna

Kristín sagði frá því að einnig væri verið að auglýsa eftir hjúkrunarfræðingum til starfa og eins vanti geislafræðing og lífendafræðing.

Á fundinum var spurt út í geðheilbrigðisþjónustu en sálfræðingur sem starfaði við svokallað ABG verkefni hætti í byrjun nóvember og ekki tókst að ráða annan í hans stað. Kristín Björg sagði að sálfræðiþjónusta væri utan fjárlaga nema sérstök eins og ABG verkefnið. Á fjárlögum væri þó gert ráð fyrir hálfu stöðugildi sálfræðings innan HSA.

Pétur lýsti þeirri skoðun sinni að geðheilbrigðisþjónusta ætti að tilheyra grunnþjónustunni. Samningi við geðlækni sem kom á FSN var sagt upp vegna kostnaðar en annar geðlæknir kemur reglulega í Egilsstaði. Pétur sagði viðræður í gangi við geðlækna um að koma og þjónusta Austfirðinga en einnig ráðleggja þeim læknum sem til staðar séu á svæðinu.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.