„Erum fyrst og fremst að berjast gegn yfirganginum“

Undirskriftalistar með nöfnum um 280 Seyðfirðinga, sem mótmæla áformum um fiskeldi í firðinum, voru í dag afhentir Birni Ingimarssyni, bæjarstjóra Múlaþings. Talsmenn undirskriftasöfnunarinnar segja Seyðfirðinga vilja fá að ráða örlögum fjarðarins sjálfir.

„Þetta gekk mjög vel því þetta meira en helmingur bæjarbúa og það voru ekki endilega allir heima þegar við komum,“ segir Þóra Guðmundsdóttir, ein af þeim sem fór fyrir söfnuninni. Leitað var til íbúa 18 ára og eldri með heimilisfesti á Seyðisfirði en þeir eru um 560 talsins samkvæmt tölum Hagstofunnar.

Um miðjan nóvember var tilkynnt frummatsskýrsla á umhverfisáhrifum eldis á vegum Fiskeldis Austfjarða í firðinum. Fyrirtækið áformar að ala þar allt að 10 þúsund tonn af laxi á fjórum svæðum, eða eins mikið og Hafrannsóknastofnun telur hægt að ala í sjókvíum þar.

„Við fórum af stað um leið og frummatsskýrslan kom út. Sumir vildu kynna sér hana betur en margir voru strax ákveðnir,“ segir Benedikta Guðrún Svavarsdóttir, ein þeirra sem gengu í hús með undirskriftalistana.

Ekki hægt að kaupa lítið leyfi og skipuleggja svo stórt eldi

Árið 2012 voru gefin út leyfi til að ala 200 tonn af fiski á tveimur stöðum í firðinum. Fiskeldi Austfjarða eignaðist þau leyfi árið 2015 og sótti í framhaldinu um stærra eldri á fleiri stöðum. Þetta hefur farið öfugt ofan í Seyðfirðinga.

Inn í deilurnar blandast einnig að skipulagsvald í sjó er ekki í höndum sveitarfélaga og ný lög um skipulag haf- og strandsvæða, sem tóku gildi sumarið 2018, ná ekki yfir mál sem þá voru hafin.

„Við viljum snúa ferlinu við. Það er ekki hægt að ákveða framtíð fjarðarins, sem við búum í, með kaupum á nokkur hundruð tonna eldi árið 2015 og skipuleggja síðan allt annað án þess að eiga við okkur orð. Áhrifin af þessu verða bæði umhverfisleg og sjónræn.

Þetta er takmörkuð og viðkvæm auðlind sem er í firðinum okkar. Hún er líka auðlind Íslendinga en nú virðist fyrirtæki, sem er að 60% hluta í eigu Norðmanna, ætla að taka hana af okkur að okkur óspurðum. Við þekkjum söguna af samþjöppun í íslenskum sjávarútvegi en erlendir aðilar mega ekki eiga í honum. Núna má það hins vegar,“ segja þær.

Vilja fá svigrúm til að skipuleggja fjörðinn

Fyrirtækið gerir ráð fyrir talsverðri fjárfestingu og atvinnuuppbyggingu á Seyðisfirði samhliða uppbyggingu eldisins en Benedikta og Þóra telja staðinn vel geta þrifist án þess.

„Okkur finnst bærinn okkar frábær og vera á uppleið. Við erum höfum byggt upp í ferða-, menningar- og menntamálum, það eru fyrirtæki að verða til og ungt fólk flytur í bæinn. Við teljum okkur því vera á góðri leið,“ segir Benedikta.

Þær segjast ekki geta svarað því fyrir hópinn í heild hvort meirihluti Seyðfirðinga setji sig upp á móti fiskeldi í firðinum með öllu. Það sé stærri spurning. Nú snúist málið um hugmyndir um að eitt fyrirtæki ætli að fullnýta burðarþol fjarðarins.

„Í ljósi aðstæðna viljum við fresta málinu. Okkur finnst eðlilegt að við fáum að hittast í okkar félagsheimili eins og við erum vön þegar taka þarf stórar ákvarðanir en við getum ekki gert það með tíu manna samkomutakmarkanir,“ segir Þóra.

„Fyrst og fremst viljum við fá að ákveða skipulagið sjálf og þar með setja hærri verðmiða á fjörðinn þetta fyrirtæki ætlar að greiða.

Fyrst og fremst erum við þó að berjast gegn yfirganginum. Það er til dæmis mikill yfirgangur að ætla ekki að fara eftir lögunum frá 2018, þar sem aðrir hagsmunaaðilar en þetta fyrirtæki skipuleggja svæðið. Það yrði strax bót í máli ef afgreiðslunni yrði frestað um þau ár sem það tekur að skipuleggja svæðið okkar,“ segir Benedikta.

Áhrifaríkast að sýna andstöðuna

Frestur til að senda Skipulagsstofnun athugasemdir við frummatsskýrsluna er til 28. desember. Umsögn Múlaþings er á dagskrá sveitarstjórnar á morgun en bæði heimastjórn Seyðisfjarðar og umhverfis- og framkvæmdanefnd hafa gagnrýnt eldisáformin.

„Það skiptir líka máli að skila inn skýrum og greinargóðum athugasemdum og erum að vinna í því. Við erum samt hrædd við samkeppni í skýrslum og athugasemdum. Við höfum mesta trú á að vilji bæjarbúa skili sér í gegnum lista sem þessa. Ef við sýnum að við erum ósátt er ekki hægt að vaða svona yfir okkur,“ segja Þóra og Benedikta að lokum.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar