„Erfitt að læra með fullt hús af börnum“

Segja má með sanni að Fróðleiksmolinn á Reyðarfirði iði af lífi þessa dagana, en bæði hefur Austurbrú umsjón með fjarprófum háskólanema, auk þess sem fjölmörg námskeið standa yfir á vegnum Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins.



Nokkur hundruð háskólapróf eru tekin á hverri önn í starfsstöðvum Austurbrúar, en flest próf eru tekin á Egilsstöðum og á Reyðarfirði en einnig er þó nokkuð um próftöku á öðrum starfsstöðvum Austurbrúar í fjórðungnum s.s. á Vopnafirði, Djúpavogi og í Neskaupstað. Bæði er um fjarnema sem stunda sitt nám í heimabyggð að ræða, en einnig er talsvert um að nemendur kjósi að taka prófin í heimabyggð þótt námið sé stundað annars staðar enda býður þetta nemendum upp á að koma fyrr heim í jólafrí en ella.

Austurbrú býður ekki bara nemendum að taka próf í starfsstöðvunum heldur einnig lestraraðstöðu sem margir nemendur nýta óspart og dvelja löngum stundum við skrifborð hjá Austurbrú.

Sigurður Örn Sigurðsson, rafvirki hjá Launafli, leggur nú stund á rafiðnfræði í Háskólanum í Reykjavík og nýtir sér aðstöðuna í Fróðleiksmolanum á Reyðarfirði. Hann segir aðstöðuna framúrskarandi og hefur setið við skrifborð í Fróðleiksmolanum á Reyðarfirði í nokkra daga þar sem hann les stíft fyrir prófin sem senn hefjast.

„Kunningi minn benti mér á að það væri hægt að læra hérna, sá hafði notfært sér aðstöðuna, líkaði vel og mælti með þessu. Að geta komið hingað og lært hefur hjálpað mér mjög mikið því að oft reynist erfitt að læra með fullt hús af börnum, sérstaklega er þetta gott þegar maður les fyrir próf,“ segir Sigurður Örn.


Gott að fá líf í húsið

Háskólanemar eru ekki þeir einu sem sitja á skólabekk í Fróðleiksmolanum þessa dagana, heldur er mikill fjöldi nemenda á námskeiðum í tengslum við námskrár frá Fræðslumiðstöð atvinnulífsins í Fróðleiksmolanum á Reyðarfirði.

Um er að ræða þrjár námsbrautir sem byggðar eru á námsskrám frá Fræðslumiðstöðinni. Í fyrsta lagi stóriðjuskóli Alcoa Fjarðaáls en þar eru um 50 nemendur í þremur hópum. Í öðru lagi eru fimmtán nemendur frá hjúkrunarheimilunum Uppsölum á Fáskrúðsfirði og Hulduhlíð á Eskifirði á fagnámskeiði fyrir starfsfólk í félags- og heilbrigðistþjónustu. Að lokum má svo nefna að tíu nemendur eru skráðir í Landnemaskólann.

Í nokkur ár hefur Austurbrú tekið að sér að skipuleggja nám fyrir starfsmenn álversins á Reyðarfirði og nokkir tugir starfsmanna hafa nú þegar útskrifast. Á fagnámskeiðum fyrir starfsfólk hjúkrunarheimila lærir fólk ýmislegt sem gagnast í starfi s.s. skyndihjálp, næringarfræði, áfallahjálp og fleira. Í landnemaskólanum læra síðan innflytjendur íslensku en einnig almennt um íslenskt samfélag, hefðir, siði og menningu.

Kjartan Glúmur Kjartansson, verkefnastjóri hjá Austurbrú og stöðvarstjóri í Fróðleiksmolanum, segir svona umsvif þýðingarmikil. „Það er gott fyrir Austurbrú að fá alla þessa nemendur inn í húsið svo maður tali nú ekki um kennarana sem við þurfum að ráða til að sinna þessum verkefnum. En mest gildi hefur þetta fyrir okkar nemendur sem margir hverjir eru að setjast á skólabekk í fyrsta skipti í langan tíma. Að gefa fólki slíkt tækifæri er einn megintilgangur stofnunar eins og Austurbrúar,“ segir Kjartan Glúmur.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.