Enn framlengt stöðuleyfi fyrir starfsmannabúðirnar

Stöðuleyfi fyrir starfsmannabúðir sem reistar voru við byggingu álvers Alcoa í Reyðarfirði hefur verið framlengt til næsta sumars. Unnið er að því að fjarlægja búðirnar.


Framlenging stöðuleyfisins hefur orðið að árvissum viðburði síðan 2009 en álverið var gangsett í mars árið 2008.

Búðirnar eru í eigu Stracta Konstruction sem keypti þær árið 2012. Alcoa óskaði í byrjun ágúst eftir framlengingu á stöðuleyfi fyrir búðirnar til 1. júlí á næsta ári. Um er að ræða leyfi fyrir allt að 180 gámaeiningar.

Í bréfi Fjarðaáls segir að stefnt sé að Stracta klári að rýma búðirnar fyrir 1. nóvember næstkomandi. Lagt hafi verið hart að Stracta að standa við þau fyrirheit en rétt þyki að eiga inni tíma til frágangs á næsta ári.

Óskin um stöðuleyfi hefur síðan verið staðfest af eigna-, skipulags- og umhverfisnefnd Fjarðabyggðar. Nefndin hafnaði hins vegar óskum Fjarðaáls um að allar skuldbindingar um hreinsun, tæmingu og skil svæðisins sem og stöðuleyfið sjálf yrði flutt á Stracta eða annað félag sem forsvarsmenn þess félags myndu benda á.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.