Enginn úr áhöfn Gullvers með Covid-veiruna

Enginn skipverja Gullvers NS er með Covid-19 veiruna. Þeir voru allir skimaðir eftir komuna til Seyðisfjarðar í gærkvöldi eftir að fimm þeirra höfðu sýnt einkenni.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Síldarvinnslunni. Þar segir að skipverjarnir hafi fundið fyrir slappleika og í öryggisskyni hafi þótt nauðsynlegt að taka sýni.

Það var gert snemma í morgun en að sýnatöku lokinni fóru þeir í einangrun á hóteli á Seyðisfirði. Allir aðrir áhafnarmeðlimir fóru í sóttkví.

Niðurstaðan liggur nú fyrir og enginn er smitaður. Skipið heldur til veiða á ný í kvöld.

Samkvæmt tölum af Covid.is er staðan óbreytt á Austurlandi, tveir eru í einangrun með virkt smit en annar þeirra dvelur þó ekki í fjórðungnum heldur er þar með lögheimili. Fimm eru í sóttkví.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar