Enginn án húsaskjóls í kjölfar skriðufallanna

Seyðfirðingar sem annað hvort ekki geta eða vilja ekki snúa aftur í hús sín eftir skriðuföllin í desember eiga að vera með með öruggt húsnæði í gegnum félagsþjónustu Múlaþings. Félagsmálastjóri segir engum verða hent á götuna að þeim tíma liðnum en aðeins sé hægt að taka eitt skref í einu.

Með átaki tókst að tryggja að meira en 100 Seyðfirðingar voru komnir í skjól fyrir jól. Einhverjir þeirra hafa fengið að snúa heim til sín en hópur getur ekki enn snúið til baka.

„Þeir sem eru nú í húsnæði á vegum sveitarfélagsins geta verið í því, eða sambærilegu húsnæði, út janúar. Ég segi út janúar því við vinnum einn dag í einu. Það verður engum hent á götuna og við veitum upplýsingar um framhaldið eins fljótt og auðið er,“ sagði Júlía Sæmundsdóttir, félagsmálastjóri Múlaþings, á íbúafundi í síðustu viku.

Hún sagði laust húsnæði á Seyðisfirði ekki standa undir eftirspurn. Barnafjölskyldur ganga fyrir í það húsnæði sem þar er. „Við viljum að börn búi við stöðugleika og komist í skóla. Annað fer eftir mati á félagslegum aðstæðum,“ sagði Júlía.

Þeim sem ekki tekst að koma fyrir á Seyðisfirði er fundinn staður á Fljótsdalshéraði. Enginn hefur þurft að greiða fyrir gistingu eða húsaskjól í kjölfar hörmunganna. Júlía sagði ekki horft í kostnaðinn vegna viðbragða, greitt yrði úr honum milli ríkis og sveitarfélags síðar.

Ekki er það bara svo að íbúar geti ekki snúið aftur. Sumir treysta sér ekki til að fara heim og eru því í húsnæði á vegum Múlaþings. „Það er engum úthýst eða neyddur til að fara úr húsnæði á vegum Múlaþings. Við erum í áfalli og vitum ekki hvernig okkur líður. Við metum hvert tilfelli fyrir sig en reynum að mæta þörfum allra sem best við getum.“

Enginn sérfræðingur sem veifar töfrasprota og fjarlægir sársaukann

Fjöldahjálparmiðstöð er opin í Herðubreið alla virka daga og starfsmenn félagsþjónustunnar eru meðal þeirra sem þar hafa veitt sálrænan stuðning. Miðstöðinni verður haldið opinni meðan þörf þykir á.

„Þar er veittur stuðningur, aðallega með samtali. Áfallahjálp felst í að tjá sig og tala saman, endurlifa atburðina í gegnum frásögn og hlusta á aðra. Það getur enginn sérfræðingur veifað töfrasprota og tekið sársaukann frá okkur. Við þurfum að ganga í gegnum hann og vinna úr honum. Mesta hjálpin felst í hvernig þið hafið stutt hvert við annað og verið saman.

Það var ótrúleg upplifun að kynnast samtakamætti Seyðfirðinga í fjöldahjálparmiðstöðinni í Egilsstaðaskóla. Ef við stöndum saman og styðjum hvert annað þá vinnum við hratt og örugglega úr þeim verkefnum sem fyrir liggja þótt við verðum marga mánuði að vinna úr afleiðingunum.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.