Engin Norræna í vikunni

Ferjan Norræna kemur ekki til Seyðisfjarðar þessa vikuna þar sem skipið er í viðgerð eftir að hafa orðið vélarvana á leiðinni til Danmerkur á laugardag.

Samkvæmt áætlun hefði Norræna átt að koma til Seyðisfjarðar í fyrramálið og vera þar til miðvikudagskvölds en ekkert verður af Íslandsferðinni að þessu sinni.

Önnur vél Norrænu bilaði á leiðinni til Hirtshals á laugardagsmorgun. Að lokum var skipið dregið til hafnar og kom þar um klukkan ellefu að staðartíma, tæpum 14 tímum á eftir áætlun.

Um miðjan dag í gær sigldi Norræna yfir til Landskrona í Svíþjóð þar sem skipið fer í slipp. Gert er ráð fyrir að hún fari þaðan á morgun og sigli þá beint til Færeyja og verði þar seint á miðvikudagskvöld eða snemma á fimmtudagsmorgun.

Vegna þessa fellur ferð skipsins til Íslands niður þessa vikuna en skipið verður aftur á áætlun í næstu viku. Í tilkynningu frá Smyril Line segir að haft verði samband við alla farþega sem áttu bókað far frá Íslandi í dag.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar