HB Grandi: Engar breytingar fyrirhugaðar á Vopnafirði

Forstjóri HB Granda segir engar breytingar framundan á starfsemi fyrirtækisins á Vopnafirði þar sem það er helsti atvinnuveitandinn. Tilkynnt var í gær að fyrirtækið myndi hætta botnfiskvinnslu á Akranesi.


„Það eru ekki fyrirhugaðar neinar breytingar á Vopnafirði,“ segir í svari Vilhjálms Vilhjálmssonar, forstjóra HB Granda við fyrirspurn Austurfréttar í kjölfar tíðindanna af Akranesi.

Botnfiskvinnslan þar hefur veitt 93 starfsmönnum vinnu. Ekki er ljóst hve mörgum verður sagt upp en ferli er hafið að hópuppsögnum. Í tilkynningu félagsins segir að rekstrarhorfur fyrir botnfiskvinnslu hafi ekki verið lakari í áratugi.

Fyrir rúmu ári tilkynnti fyrirtækið um uppbyggingu bolfiskvinnslu á Vopnafirði til að mæta sveiflum í uppsjávarveiðum. Að sögn Vilhjálms, sem áður stýrði Tanga á Vopnafirði, stendur til að prufukeyra þá vinnslu á næstu dögum.

Hagnaður HB Granda nam 3,5 milljörðum króna í fyrra og hefur verið lagt til að hluthöfum verði greiddir 1,8 milljarðar króna í arð. Ákvörðunin verður tekin á aðalfundi í byrjun maí. Arðgreiðslur fyrir árið 2015 námu þremur milljörðum króna.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.