Eldur í rafstöðinni í Neskaupstað í nótt

Eldur kviknaði í rafstöðinni í Neskaupstað í nótt. Slökkvilið Fjarðabyggðar var kallað út um tíu mínútur yfir fjögur í nótt. Greiðlega tókst að slökkva eldinn þrátt fyrir erfiða aðkomu. Minniháttar skemmdir urðu á húsi rafstöðvarinnar.

 

„Það gerist eitthvað í þakinu þar sem útblástursrörin komu út. Þar kviknaði í þakklæðningu en við vitum ekki nákvæmlega hvað gerðist,“ segir Guðmundur Helgi Sigfússon slökkvuliðsstjóri. 

Hann segir að eldurinn hafi logað upp úr þakinu og ekki komist í varaaflstöðvarnar sem í húsinu eru. 

„Stöðvarnar voru búnar að vera í gangi frá um 20:00 í gærkvöldi vegna viðgerða Landsnets við háspennulínurnar. Sem betur fer voru brunavarnir vel frá gengnar og því komst eldur ekki niður.“

Hann segir að útlitið hafi ekki verið gott í fyrstu. „Nei þetta leit ekki vel út til byrja með. Við þurftum mokstur í kringum húsið og að sanda áður en við gátum komist almennilega að húsinu. En sem betur fer tafði þetta okkur ekki. Slökkvuliðsbílinn sem við fengum í fyrra reyndist okkur vel. Við gátum skotið vatninu beint að eldinum.“

 

Eldur í rafstöðinni í Neskaupstað. Mynd: Jóhann Þ. Þórðarsson.


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar