Eldur í rafstöðinni í Neskaupstað í nótt

Eldur kviknaði í rafstöðinni í Neskaupstað í nótt. Slökkvilið Fjarðabyggðar var kallað út um tíu mínútur yfir fjögur í nótt. Greiðlega tókst að slökkva eldinn þrátt fyrir erfiða aðkomu. Minniháttar skemmdir urðu á húsi rafstöðvarinnar.

 

„Það gerist eitthvað í þakinu þar sem útblástursrörin komu út. Þar kviknaði í þakklæðningu en við vitum ekki nákvæmlega hvað gerðist,“ segir Guðmundur Helgi Sigfússon slökkvuliðsstjóri. 

Hann segir að eldurinn hafi logað upp úr þakinu og ekki komist í varaaflstöðvarnar sem í húsinu eru. 

„Stöðvarnar voru búnar að vera í gangi frá um 20:00 í gærkvöldi vegna viðgerða Landsnets við háspennulínurnar. Sem betur fer voru brunavarnir vel frá gengnar og því komst eldur ekki niður.“

Hann segir að útlitið hafi ekki verið gott í fyrstu. „Nei þetta leit ekki vel út til byrja með. Við þurftum mokstur í kringum húsið og að sanda áður en við gátum komist almennilega að húsinu. En sem betur fer tafði þetta okkur ekki. Slökkvuliðsbílinn sem við fengum í fyrra reyndist okkur vel. Við gátum skotið vatninu beint að eldinum.“

 

Eldur í rafstöðinni í Neskaupstað. Mynd: Jóhann Þ. Þórðarsson.


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.