Ekki vitað um neinar skriður í morgun

Ekki er vitað um neinar skriður á Seyðisfirði í morgun en beðið er birtingar með að kanna verksummerki betur eftir skriðuföll gærdagsins. Björgunarsveitin Ísólfur aðstoðar íbúa ef þeir þurfa að komast inn í hús sem rýmd voru.

Heldur dró úr úrkomu og vatnsaga á Seyðisfirði í gærkvöldi og nótt. Síðast er vitað um skriðu þar klukkan tíu í gærkvöldi en eftir það virðist ástandið hafa náð jafnvægi, að því er fram kemur í tilkynningu frá lögreglu.

Ekki er vitað um neinar skriður í morgun en beðið er birtingar til að kanna aðstæður. Um 120 manns þurftu að yfirgefa heimili sín eftir miðjan dag í gær þegar tvær aurskriður fellu niður í bæinn. Hættustig vegna skriðufalla er í gildi í bænum.

Íbúar sem rýmt hafa hús sín og þurfa nauðsynjar eru hvattir til að leita í Sæból, hús björgunarsveitarinnar Ísólfs á Seyðisfirði. Þar bíður aðstoð við að fara inn á svæðið auk nýjustu upplýsinga.

Lögreglan stefnir að því frá og með hádegi í dag að senda reglulega SMS skilaboð til þeirra sem eru á Seyðisfirði með upplýsingum og leiðbeiningum. Skilaboðin eru send í samvinnu við Fjarskiptamiðstöð ríkislögreglustjóra.

Upplýsinga fyrir íbúa á Seyðisfirði er því að leita í björgunarsveitarhúsinu á Seyðisfirði auk þess sem fréttatilkynningar verða reglulega birtar hér á Austurfrétt, á Facebook-síðu lögreglunnar á Austurlandi með SMS boðum. Þá verða birtar upplýsingar á heimasíðu sveitarfélagsins Múlaþings, mulathing.is.

Mynd: Ómar Bogason

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar