Ekki talið að einkennalausir geti smitað aðra af kórónaveiru

Ekki er talin hætta á að einstaklingar án einkenna kórónaveiru geti smitað aðra. Þess vegna sé ekki undarlegt að setja fólk í heimasóttkví þótt það hafi farið í gegnum nokkra viðkomustaði á leið heim til sín af svæði þar sem veiran hefur breiðst út. Leitað er að samferðafólki hjóna frá Egilsstöðum sem sett voru í heimasóttkví í gær.

Hjónin á Egilsstöðum voru að koma frá Venetó-héraði á Ítalíu, einu af fjórum héruðum landsins sem sóttvarnalæknir hefur mælt gegn ferðum til og fyrirskipað að fólk sem þaðan kemur verði í heimasóttkví í tvær vikur eftir heimkomu.

Samkvæmt upplýsingum frá Heilbrigðisstofnun Austurlands leitaði parið sjálft til heilsugæslunnar á Egilsstöðum og var, samkvæmt leiðbeiningum landlæknis, ráðlagt að fara í heimasóttkví. Ekki er grunur um að þau séu smituð eða hafi umgengist smitaðan einstakling.

Á blaðamannafundi sóttvarnalæknis og Almanna í dag kom fram að verið væri að hafa upp á ferðafélögum hjónanna. Þau voru hluti af fjórtán manna hóp Íslendinga sem fór til Venetó í skíðaferð. Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, segist að í dag hafi verið unnið að því að hafa upp á öðrum í hópnum og hringja í þá. Í samtali við Austurfrétt kvaðst hann ekki hafa upplýsingar um hvar á landinu þeir væru.

Aðrir í sama flugi ekki í hættu

Á fundinum var Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, spurður hvort ekki væri undarlegt að fólkið í sóttkví loks heima hjá sér eftir að hafa lagt að baki langa leið og hver áhætta væri sem umgengist hefðu fólkið á leið þess.

„Það er ekki undarlegt því fólkið er einkennalaust. Fólk án einkenna er ekki talið smitandi og því teljum við öðrum sem voru í sama flugi ekki hætta búin. Við viljum hins vegar geta fylgst með því og greint veiruna eins hratt og kostur er,“ svaraði hann.

80% fá væg einkenni

Sóttvarnalæknir hefur mælst gegn ónauðsynlegum ferðalögum til fjögurra héraða á Ítalíu, Kína, Suður-Kóreu og Íran, en á þessum svæðum hefur útbreiðsla Covid-19 veirunnar verið mest. Þórólfur sagði athyglivert að útbreiðslan í Evrópu væri mest á Ítalíu, því landi sem til harðasta aðgerða hefði gripið til að leita að veikum ferðamönnum.

Hann lagði áherslu á að um 80% þeirra sem smituðust fengju veiruna í vægu formi, 20% sýndu alvarlegri einkenni og 5% það alvarleg að þau þyrftu að leggjast inn á gjörgæslu. Dánartíðnin hefur verið stöðug 2-3%. Verst hefur veikin komið niður á eldra fólki meðan börn og fólk á miðjum aldri virðist þola hana betur.

Þetta þýddi að miðað við versta faraldurinn í heiminum í dag, í Wubei-héraði í Kína, og að Íslendingar myndu engar varnir við hafa myndu um 300 einstaklingar hérlendis smitast af kórónaveirunni, rúmlega 20 veikjast alvarlega og allt að tíu manns látast. „Þetta er besta nálgunin á það versta sem gæti gerst.“

Aðgerðirnar byggja á að borgararnir framfylgi tilmælum

Meðal annars vegna þess hve margir sem fá veiruna sýna lítil, eða engin einkenni, sagði Þórólfur að nær ómögulegt væri að hefta útbreiðslu kórónaveirunnar. Þó væri lögð áhersla á að hefta útbreiðslu hennar eins snemma og hægt væri, meðal annars með að beita sóttkví á þá sem kunna að hafa komist í tæri við smitaða einstaklinga.

Rögnvaldur Ólafsson, frá Almannavörnum, sagði að ráðstafanir sóttvarnalæknis um að ráðleggja þeim sem kæmu frá mestu áhættusvæðum að fara í sóttkví væru harðari en í nágrannalöndunum. Það væri liður í að reyna að stoppa útbreiðslu veirunnar af sem fyrst og því yrði haldið til streitu.

Hann færði þeim þakkir sem farið hefðu eftir tilmælunum og Þórólfur undirstrikaði að mikilvægt hefði frumkvæði sjálft til að varnirnar héldu. „Þessi tilmæli og aðgerðir byggja á að fólk fari eftir þeim. Það á við um alla. Annars náum við ekki þeim árangri sem við viljum. Við höfum ekki tök á að vera með gæslu á öllum þeim sem koma til landsins,“ sagði hann.

Veikt fólk fari ekki í flug

Rögnvaldur sagði að umræða Íslendinga um veiruna hefðu aukist verulega eftir að hún færðist nær landinu, einkum eftir að hún kom upp á Tenerife. Ekki er enn varað við ferðum þangað né þeim sem þaðan koma vísað í sóttkví. Austurfrétt er kunnugt um þó nokkra Austfirðinga meðal þeirra Íslendinga sem þar dveljast nú um stundir. Rögnvaldur sagði að ef fólk sýndi einkenni fyrir brottför frá áhættusvæði, eða dvalarstað, eigi það að láta skoða sig hjá þarlendum heilbrigðisyfirvöldum áður en farið sé í flug. „Við viljum að fólk láti vita af sér úti ef því líður illa. Við viljum ekki að það fari í flug.“

Hann hvatti fólk til að halda ró sinni en fylgjast vel með fréttum og upplýsingum landlæknis. Jafnframt að þvo sér vel um hendur. Þá ítrekaði hann þörfina á þolinmæði því baráttan við að hefta útbreiðslu veirunnar stæði yfir næstu vikur og mánuði.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.