„Ekki staða sem Seyðfirðingar eða Austfirðingar geta unað“

Forseti bæjarstjórnar á Seyðisfirði segir það áfall að ekki sé gert ráð fyrir framkvæmdum við Fjarðarheiðargöng fyrr en eftir tíu ár í nýrri samgönguáætlun. Seyðfirðingar binda vonir við að áætlunin breytist í meðförum Alþingis.

„Þetta er vægt til orða tekið gríðarlegt áfall og ekki í takt við það sem okkur hefur verið sagt upp á síðkastið.

Þetta er ekki staða sem Seyðfirðingar eða Austfirðingar geta unað við, að gengið sé framhjá ályktunum Sambands sveitarfélaga á Austurlandi með þessum hætti,“ segir Hildur Þórisdóttir, forseti bæjarstjórnar á Seyðisfirði.

Þar er Hildur að vísa til ályktana SSA um að heilsársvegur yfir Öxi og göng til Seyðisfjarðar séu forgangsmál framkvæmda í fjórðungnum. Í nýrri samgönguáætlun til 15 ára, sem samgönguráðherra lagði fram á Alþingi í síðustu viku, eru báðar framkvæmdirnar á síðasta tímabili áætlunarinnar, árin 2029-2033.

Ráðherra ósáttur við ályktun SSA

Það var reyndar ljóst nokkrum dögum fyrr eftir kynningu ráðherra á helstu atriðum áætlunarinnar. Stjórn SSA, sem Hildur situr í, brást strax við með ályktun og fékk fund með samgönguráðherra síðasta miðvikudag.

„Hann var óhress með það sem hann kallaði harðorða tilkynningu en við útskýrðum okkar sjónarmið og stöndum við okkar. Miðað við hressileg viðbrögð var hann að minnsta kosti búinn að mynda sér skoðun á skilaboðum okkar.“

Dýrafjarðargöng dýrari en reiknað var með

Hún segir að ekki hafi komið nákvæmar skýringar á því hvers vegna Fjarðarheiðargöngum væri seinkað og gert tíu ára hlé á allri jarðgangagerð á landinu, nema að 10 milljarða þyrfti aukalega í Dýrafjarðargöng þar sem í upphaflegri áætlun hefði gleymst að gera ráð fyrir vegtengingum að göngunum.

Þá hafi ráðherrann einnig talað um að gjaldtaka á samgöngumannvirkjum á suðvesturhorninu gæti liðkað fyrir framkvæmdum annars staðar. Bæjarfulltrúar á Seyðisfirði hittu fyrir helgi forsvarsmenn færeyskra jarðganga sem rukkað er í og lærðu af margvíslegri reynslu þeirra.

Gjaldtaka kemur til greina

Aðspurð um hvort til greina komi að innheimta veggjöld í Fjarðarheiðargöngum segir Hildur Seyðfirðinga opna fyrir öllum lausnum sem flýtt geti fyrir göngum og þeir hafi aldrei talað á öðrum nótum en gjaldheimta sé inni í myndinni.

Seyðfirðingar hafa einnig sett þrýsting á þingmenn sem staddir voru eystra í dag út af kjördæmaviku. „Samgönguáætlun á eftir að fara í gegnum þrjár umræður í þinginu og við höfum fengið skilaboð um að halda í bjartsýnina,“ segir Hildur.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.