Ekki birgðirnar núna sem eru vandamálið heldur eftir sláturtíð

Forsvarsmenn sauðfjárbænda og sláturleyfishafa deila áhyggjum af þeim birgðum sem að líkindum verða til að lokinni sláturvertíð í haust. Þrátt fyrir birgðir eru dæmi um að kjöt hafi vantað í verslanir og að afurðastöðvar hafi ekki fengið keypt af öðrum.


Þetta er meðal þess sem fram kom fram á fjölmennum fundi sem austfirskir sauðfjárbændur efndu til í félagheimilinu á Arnhólsstöðum í Skriðdal í gærkvöldi.

Óttast er að umframbirgðir að lokinni sláturtíð í haus verði allt að 2000 tonn. Metframleiðsla var í fyrra og enn virðist bætast í nú út af góðu árferði í náttúrunni. Skúli Þórðarson frá Sláturfélagi Vopnfirðinga spáði í gær 500 tonna viðbót út af meiri fallþunga. Það kemur í kjölfar 500 tonna framleiðsluaukningar milli áranna 2015 og 16.

Talsmenn sauðfjárbænda hafa undanfarna mánuði varað við því hvert stefndi og síðustu vikur hafa sláturleyfishafar tilkynnt um 35% verðlækkun til bænda. Ljóst er að slík lækkun hefur alvarleg áhrif á afkomu þeirra sem starfa í greininni.

Útflutningur sem borgar sig ekki

Ástæðurnar eru margþættar. Sterkara gengi krónunnar þýðir að mun minna fæst fyrir útflutning á sama tíma og markaðir hafa annað hvort lokast eða verð á þeim lækkað. Á sama tíma hefur framleiðslukostnaður aukist, einkum vegna hækkunar launa. Til viðbótar hefur smásöluverð ekki haldið í við almenna verðlagsþróun.

Verðfallið veldur því hins vegar að afurðastöðvarnar þurfa nánast að greiða með því kjöti sem flutt er út og bændur fá varla upp í framleiðslukostnað.

Birgðastaðan er miserfið eftir afurðastöðvum. Á fundinn í gær komu framkvæmdastjórar bæði Norðlenska og Sláturfélags Vopnfirðinga. Báðir báru um að árangur hefði náðst í að koma út kjöti á síðustu mánuðum og að þeir hefðu séð svartari stöðu í geymslunum. Stærstu áhyggjurnar eru hins vegar af kjötinu sem bætist við í haust.

Af hverju vantar kjöt í búðir ef birgðir eru vandamálið?

En á sama tíma og borist hafa fréttir af því að birgðir séu meiri en æskilegt geti talist hafa neytendur birt myndir á samfélagsmiðlum af tómum kjötborðum í stórmörkuðum. Bændur sem tóku til máls á fundinum sögðu að slík dæmi mættu ekki koma upp og kröfðu svara um útstillingar og samskipti við verslanir.

Ágúst Torfi Hauksson, framkvæmdastjóri Norðlenska sagði að ekki væri einungis magnið í geymslunum sem skipti máli heldur hvernig það væri samsett. Hjá Norðlenska séu það aðallega stærri læri og frampartar en lærunum eigi hins vegar að vera hægt að breyta í verðmæti, til dæmis hangikjöt.

Ingvar Gíslason, markaðsstjóri fyrirtækisins, sagði að hryggi hefði skort í sumar. Fyrirtækið hefði reynt að kaupa hryggi af öðrum framleiðendum en fengið þau svör að það yrði þá að kaupa heila skrokka. „Við höfðum ekki áhuga á því.“ Reynt væri að bjóða aðrar vörur í staðinn ef sú sem kaupandi óskaði eftir væri uppurin.

Erfið samningsstaða gagnvart verslunum

Ingvar benti hins vegar á erfiða samningsstöðu fyrirtækisins, einkum á smásölumarkaði þar sem þrjár keðjur ráði markaðinum. „Ef einn dettur út þá eigum við tvo eftir,“ sagði hann. Þess vegna hafi á undanförnum árum verið lögð aukin rækt á sölu í stóreldhús.

Norðlenska, sem hefur verið stærsti kaupandi austfirsks lambakjöts, skiptir mest við Kaupás sem rekur Krónubúðirnar. Ingvar sagði samstarfið hafa verið gott um vöruþróun og framsetningu.

Hann sagði ýmsar leiðir hafa verið reyndar í vinnslu lambakjöts. Þær sem ekki virki séu fljótt lagðar af þar sem hilluplássið í verslunum sé dýrt. Bæði hann og Skúli hvöttu bændur til að fylgjast vel með framsetningu kjötsins í búðum.

„Þið sem neytendur eruð helsta vopnið í baráttu fyrir auknu hilluplássi. Það leiðinlegasta sem verslunarstjórar vita eru neytendur að kvabba í þeim um af hverju þetta eða hitt sé ekki til,“ sagði Ingvar.

Frosna varan skilar litlu

Norðlenska er með sölumenn sem sjá um útstillingar vörunnar á Akureyri og höfuðborgarsvæðinu. Annars staðar sjá verslanir um það sjálfan. „Við getum ekki haldið úti sölumönnum um allt land. Þess vegna verðið þið að sýna versluninni meira aðhald,“ sagði Skúli.

Hluti þeirra mynda sem birst hafa á samfélagsmiðlum að undanförnu eru af tómum frystum. Ingvar sagði þróunina undanfarin ár hafa verið meiri eftirspurn eftir ófrosnu kjöti. „Það gefur öllum lítið að selja frosið. Sums staðar eru frosin læri eingöngu í markaðslegum tilgangi,“ sagði Ingvar.

Hann bætti hins vegar við að hann væri „handviss“ um að verslunin sé sá aðili sem hafi mest upp úr kjötsölunni.

Ágúst Torfi sagði að snúið gæti verið fyrir minni verslanir að eiga rétt magn af birgðum, einkum af ófrosnu kjöti. Erfitt sé að panta þegar veðurspáin breytist skyndilega og bærinn fyllist af fólki.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.