„Ekki bara spurning um að komast yfir brúna“

Flóðið í Lagarfljóti í lok september eykur þrýsting á að byggð verði ný brú yfir Fljótið milli Egilsstaða og Fellabæjar. Áhyggjur voru af því að brúin gæfi sig. Hún skiptir ekki bara máli fyrir flutninga fólks og varnings því um hana liggja vatns-, rafmagns- og fjarskiptalagnir.

Í fundargerð almannavarnanefndar Múlaþings eftir flóðin segir að miklar áhyggjur hafi verið af brúnni en auk þess að vera hluti af þjóðvegi númer eitt liggja í henni rafstrengir, ljósleiðari og hitaveitulagnir. Björn Ingimarsson, nefndarmaður og bæjarstjóri Fljótsdalshéraðs, segir hins vegar að mikið vatn hefði þurft til viðbótar til að ógna brúnni.

„Það vantaði 30 sentimetra upp á vatnshæðina frá 2002 þannig að mat manna var að það þyrfti óhemju vatnsmagn til viðbótar til að sú hækkun yrði. Eina sem menn höfðu áhyggjur af var ef veðrið hefði rokið upp þá hefði það skapað hættu. Veðurspáin benti ekki til þess þannig menn voru tiltölulega rólegir.“

Lagnir í hættu ef brúin fer á kaf

Fram eftir fimmtudeginum 29. september var fylgst með brúnni og vatnsstöðunni í Fljótinu sem náði hámarki um miðnætti. Ekki urðu skemmdir á brúnni að þessu sinni en flóðin hafa hins vegar vakið fólk aftur til umhugsunar um hana, hvað gerist ef hún skemmist í vatnavöxtum og hvað hægt sé að gera til að verja hana.

„Þetta er ekki bara spurning um að komast yfir brúna. Lagnirnar eru í hættu ef brúin fer á kaf og ef þær rofna eru menn í vanda,“ útskýrir Björn.

Ný brú eina varanlega lausnin

Nefndin hefur því kallað eftir samvinnu við Vegagerðina, orkufyrirtæki og virkjunaraðila um aðgerðir. Í fundargerð nefndarinnar kemur fram að skoðað hafi verið að rjúfa veginn við Lagarfossvirkjun til að auka rennslið fram farveginn en rannsaka þurfi hvernig það verði gert, hvaða afleiðingar yrðu og hugsanlegar mótvægisaðgerðir.

„Við vorum sammála um að við fáum aftur svona vatnsmagn og spurningin er bara hvenær. Við fundum aftur í næsta mánuði og munum kalla eftir samræðu við þá sem reka virkjanirnar og velta upp hvaða aðgerða er hægt að grípa til ef menn standa aftur frammi fyrir svona stöðu.“

Brúin var byggð árið 1953 á stöplum brúar frá 1905. Bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs hefur ítrekað þrýst á um að ný brú verði byggð. „Ný brú er eina varanlega lausnin. Við höfum horft meira á umferðarþunga og þungatakmarkanir sem eru á brúnni en þarna erum við komin með annan vinkil á umræðuna.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.