Ekki ástæða til að óttast orma í sandkössum

Skipt var um sand í sandkassa við leikskólann Skógarland á Egilsstöðum í gær eftir að kattaspóluormur fannst í sandinum. Sérfræðingur segir takmarkaða hættu hafa verið á ferðinni en rétt hafi verið gefa ekki afslátt af öryggi barnanna.

Starfsmenn leikskólans kölluðu til Heilbrigðiseftirlit Austurlands eftir að börnin komu inn með hvíta orma upp um alla pollagalla eftir að hafa verið að leika sér í sandinum í gær.

Lára Guðmundsdóttir hjá HAUST segir að þar hafi verið um að ræða svokallaða pottorma sem eru af ætt liðorma og þar með skyldir ánamöðkum. Þeir séu meinlausir en vissulega hafi útgangurinn ekki verið geðfelldur enda mikið um ormana í bleytunni í gær.

Starfsmenn HAUST skoðuðu sandinn og fundu við leitina einn kattaspóluorm. Sá ormur getur lifað í mönnum og valdið þar sýkingum. „Við gefum ekki afslátt af öryggi barnanna þannig það var ákveðið að skipta um sand. Það er virðingarvert af sveitarfélaginu að taka vel á þessu.“

Að sögn Láru stendur ekki til að skoða fleiri sandkassa við leikskóla á Héraði enda sé nýrri sandur í þeim flestum. Hún telur ekki ástæðu til að óttast ormana víðar þótt aldrei sé hægt að útiloka þá algjörlega.

Ekki er nýtt að sníkjudýr úr köttum eða hundum finnist í sandkössum við leikskóla. Fyrir nokkrum árum var gerð rannsókn í Reykjavík þar sem skítur úr köttum eða hundum fannst í tveimur af hverjum þremur sandkössum. Í um 10% mátti finna þar egg spóluorma.

Þar sem í eðli katta er að skíta í sand þar sem hann finnst þarf reglulega að skipta um sand í sandkössum. Þá er til skoðunar að kaupa yfirbreiðslur fyrir kassa á vegum Fljótsdalshéraðs.

Samkvæmt lögum ber kattaeigendum að láta ormahreinsa ketti sína árlega.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.