Ekki ástæða til að óttast að vera sendur á Norðfjörð

Umdæmissjúkrahús Austurlands í Neskaupstað stendur vel undir þeim verkefnum sem því eru falin frá öðrum heilsugæslustöðvum í fjórðungnum. Hvorki sjúklingar né aðstandendur hafa ástæðu til að óttast að vera sendir þangað til rannsókna og meðferðar frekar en fara beint á sjúkrahús utan fjórðungs.


Þetta er mat Þóru Elísabetar Kristjánsdóttur, heimilislæknis, sem nýverið rannsakaði afdrif sjúklinga sem sendir eru frá Egilsstöðum á Norðfjörð.

„Lykilniðurstöður mínar er að það er vel valið hverjir eru sendir á Norðfjörð áður en þeir eru sendir þangað og að sjúkrahúsið virðist anna þeim sjúklingum sem þangað eru sendir,“ segir hún í nýjasta tölublaði Austurgluggans.

Þóra Elísabet hefur undanfarin ár unnið eystra meðfram sérfræðinámi í heimilislækningum og verið staðsett um lengri tíma eða skemmri á öllum læknastöðum eystra nema Norðfirði. Mest hefur hún þó verið á heilsugæslunni á Egilsstöðum sem er stærsta stöðin.


Oft erfitt að meta hvert senda eigi sjúkling

Í rannsókn sinni skoðaði Þóra Elísabet hvernig þeim hefði vegnað sem sendir voru frá Egilsstöðum á önnur sjúkrahús, einkum Neskaupstað, til frekari meðferðar. Hún bar saman gögn frá fyrstu átta mánuðum áranna 2015 og 2016. Komur til lækna á Egilsstöðum voru álíka margar bæði árin, um 10.500. Fyrra árið lögðust 105 þeirra inn á sjúkrahús en 131 það seinna.

Hvort ár fóru um 60% á Norðfjörð en afgangurinn skiptist nánast jafnt milli Sjúkrahússins á Akureyri og Landsspítalans. Af þeim sem fóru á Norðfjörð þurfti að senda 16% lengra áfram að lokinni rannsókn árið 2015 en 13% árið 2016, eða 10 sjúklingar hvort ár.

Að mörgu er að hyggja þegar metið er hvert eigi að senda sjúkling. Þeir sem hlotið hafa fjöláverka eftir slys, fá hjartaáfall, beinbrot sem þurfa aðgerð og börn fara út úr fjórðungnum en aðrir gjarnan til Norðfjarðar. Eins þarf að hafa í hug samgöngur til Norðfjarðar.

„Þær hafa mikil áhrif á hvert maður sendir sjúklinga. Ef maður telur líkur á að það þurfi sérhæfða þjónustu og er í vafa um hvort hún sé til staðar á Norðfirði fer fólk frekar í bæinn. Það er líka kostnaðarmál að velja að senda sjúklinga með sjúkraflugi. Þetta er því oft erfið ákvörðun en maður lætur sjúklinginn njóta vafans.“

Með bættum samgöngum til Norðfjarðar, nýjum göngum og malbikaðri flugbraut þar, breytist staðan töluvert í lok sumars. „Já, ég á von á því að þá verði auðveldari ákvörðun að senda fólk þangað til rannsóknar.“

Veikindi geta versnað

Rannsóknin sýndi að ákveðin veikindi voru algengust meðal þeirra sjúklinga sem sendir voru áfram frá Norðfirði, nýgreint æxli var þar mest áberandi ásamt gallstasa og magablæðingum sem ekki tókst að stöðva.

Af þeim 20 einstaklingum sem sendir voru áfram lýsir Þóra Elísabet aðeins tilfelli eins þeirra sem dramatísku.

„Sú staða var ekki fyrirsjáanleg þegar sjúklingurinn var sendur af stað. Eðli veikinda er að þau geta versnað og það var ekkert í því tilfelli sem benti til þess að öðruvísi hefði átt að fara í upphafi. Það var leiðinlegt hvernig fór en viðkomandi náðist vel til baka eftir gjörgæslumeðferð í Reykjavík. Í framhaldi lagðist hann aftur inn á FSN“

Öll læknisumdæmi á Austurlandi, utan Vopnafjarðar og Hornafjarðar, senda sjúklinga til Norðfjarðar. Á Fljótsdalshéraði hefur borið á ótta um að verið sé að senda sjúklinga fram og til baka að óþörfu og komu þær áhyggjur meðal annars fram á íbúafundi um heilbrigðismál þar í vor. Þóra Elísabet telur þann ótta „ástæðulítinn“ eftir rannsóknina.


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.