Ekki æskilegt að starfsmenn séu einir á starfsstöð

Bæjarráð Fjarðabyggðar mótmælir því að Matvælastofnun (MAST) hyggist staðsetja sérfræðing í fiskeldi á Egilsstöðum þar sem ekkert eldi er stundað. Forstjóri stofnunarinnar segir betra að hafa fleiri starfsmenn stofnunarinnar á sama stað. Aðrir kostir séu þó ekki útilokaðir.

Matvælastofnun auglýsti núverið eftir sérfræðingi fiskeldis, starfsmanni með fagþekkingu á fiskeldi í 100% starf, með aðsetur á starfsstöð MAST á Egilsstöðum.

Bæjarráð Fjarðabyggðar bókaði á fundi sínum í síðustu viku mótmæli vegna staðsetningarinnar. Í bókuninni segir að það skjóti skökku við að starfsmaður sem hafa eigi eftirlit með fiskeldi, aflameðferð og bátum verði staðsettur „svo fjarri allri starfsemi fiskeldisfyrirtækjanna.

Hvergi á Íslandi er kröftugri uppbyggingu laxeldis en í Fjarðabyggð nú um stundir og verður því að teljast eðlilegast og hagkvæmast að starfsemi sem þessi sé með aðsetur í námunda við þá starfsemi.“

Hrönn Ólína Jörundsdóttir, forstjóri MAST, segir að stofnunin sé að byggja upp getu til að sinna fiskeldismálum og því hafi verið bætt við stöðugildi. Starfsmanninum sé meðal annars ætlað að vinna að útgáfu rekstrarleyfa og eftirliti með eldinu eystra en nýtist einnig í eftirliti með matvælaframleiðslu á svæðinu, eins og tekið er fram í auglýsingunni.

Í svari við fyrirspurn Austurfréttar segir hún fyrst og fremst tvær ástæður fyrir því að staðan hafi verið auglýst á Egilsstöðum frekar en Austurlandi almennt.

„Annars vegar er Matvælastofnun nú þegar með starfsmann sem er staðsettur á Egilsstöðum og því væri rekstrarlegt hagræði að hafa alla starfsmenn á sama stað.

Hins vegar er líka faglegur stuðningur að hafa alla starfsmenn Matvælastofnunar á Austurlandi saman til að auka samskipti og samlegð milli þessara starfsmanna og koma í veg fyrir einangrun starfsmanns. Rekstur á einstaklingsstöðum er töluverð áskorun félagslega og faglega fyrir þá starfsmenn sem eru staðsettir út á landi og því mátum við það að til að byggja upp sterkari kjarna væri betra að starfsmennirnir væru staðsettir saman,“ segir hún.

Auglýsingin sé hins vegar ekki endanlega. „Það er einnig afstaða okkar að ef hæfasti einstaklingurinn sem myndi sækja um væri ekki búsettur annarsstaðar á Austfjörðum en Héraði þá myndum við skoða staðsetninguna í samhengi við ráðninguna og reyna að finna lausn sem hentar öllum aðilum.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.