„Ekkert sem kemst í lag á morgun“

Aðeins tveir þéttbýliskjarnar á starfssvæði Heilbrigðiseftirlits Austurlands (HAUST) eru með fráveitukerfi sem uppfyllir kröfur fráveitureglugerðar. Framkvæmdastjóri HAUST segir miklar kröfur sem kostnaðarsamt sé að uppfylla standa í sveitarfélögunum fremur en viljaleysi.


„Við teljum að ekki sé um að ræða viljaleysi sveitastjórnarfólks að fráveitumálin séu ekki lengra komin en raun ber vitni. Vinnan er ofboðslega dýr og tekur langan tíma,“ segir Helga Hreinsdóttir, framkvæmdastjóri HAUST.

Frestur sem sveitarfélögin höfðu til að uppfylla kröfurnar rann út árið 2005 og um svipað leyti var felldur niður fráveitustyrkur sem ríkið veitti sveitarfélögunum til úrbóta. Helga segir að á þeim tíma hafi ýmislegt áunnist, til dæmis hafi útrásir á Eskifirði verið hátt í 80 þegar vinnan fór af stað og mikið fé hafi verið lagt í að sameina útrásir og hreinsa læki af skólpi.

Svæðin tvö sem uppfylla kröfurnar eru Borgarfjörður eystri og Nesjahverfi í Hornafirði en framkvæmdum á síðarnefnda svæðinu lauk í haust. Heilbrigðiseftirlitið hefur heitið því að beita sér af festu í málaflokknum á næstunni og þrýsta sérstaklega á sveitarfélögin um að leggja fram áætlanir um úrbætur. „Við höfum gengið eftir að sveitarfélögin hafi áætlanir um hvernig eigi að ljúka málunum og að jafnt og þétt sé unnið skv. þeirri áætlun. Þetta er hins vegar ekkert sem kemst í lag á morgun.“


Fleiri gerlar í baðvatni en skólpi

Helga bindur einnig vonir við endurskoðun fráveitureglugerðar sem er í gangi en miklar kröfur í henni hafa líka tafið fyrir úrbótum. „Ég á von á að fjöldi gerla sem mega fara út í sjó með fráveituvatni verði hækkað frá því sem nú er.

Núverandi reglugerð var á sínum tíma sett með hagsmuni sjávarútvegarins í huga og þá var mönnum afar umhugað um að hreinleiki væri í fyrirrúmi við markaðssetningu afurða. Reglugerð okkar er til dæmis strangari en hjá Evrópusambandinu. Það er til dæmis umhugsunarvert að fólk megi baða sig í náttúrulaugum með fleiri gerlum heldur en mega vera í skólpútrás.“


Fráveiturnar eru meðal þeirra innviða sem sæta auknu álagi vegna aukins ferðamannastraums. „Það reynir á þegar íbúafjöldinn margfaldast miðað við það sem innviðirnir eru gerðir fyrir. Við getum tekið Hallormsstað sem dæmi þar sem hótelið er jafn stórt og byggðin. Sölu gistingar fylgja einnig þvottar á sængurfötum og fleira sem eykur álag á fráveituna.“

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.