Eitt besta árið í sögu Loðnuvinnslunnar: Hoffellið malar gull

Hagnaður af rekstri Loðnuvinnslunnar á Fáskrúðsfirði nam tæpum tveimur milljörðum króna í fyrra. Það er eitt besta rekstrarárið í sögu félagsins sem hefur stórbætt afkomu sína á síðustu árum.


„Það má segja að það hafi allt verið með okkur á síðasta ári,“ sagði Friðrik Mar Guðmundsson, framkvæmdastjóri félagsins, þegar hann kynnti afkomuna á aðalfundi fyrirtækisins nýverið.

Hagnaðurinn nam 1,964 milljörðum króna og hefur tæplega fjórfaldast frá árinu 2010. Grunnurinn að margfölduninni er nýja Hoffellið sem kom til Loðnuvinnslunnar um mitt ár 2014.

„Það landaði 46 þúsund tonnum sem er algjört með. Við hefðum aldrei getað gert neitt þessu líkt á gamla skipinu,“ sagði Friðrik.

Félagið keypti í byrjun árs línuveiðibátinn Sandfell og yfir 1000 tonna bolfiskkvóta. Það kallar á frekari breytingar í frystihúsinu þar sem sett verður upp ný framleiðslulína sem eykur afköstin til muna. Með nýrri vatnsskurðarvél á þar að verða eitt fullkomnasta frystihús landsins. „Afköstin aukast um 70% en það verður óbreyttur mannafli.“

Lokun Rússlandsmarkaðar setti strik í reikninginn hjá Loðnuvinnslunni en gott verð fékkst á öðrum mörkuðum og afurðum, svo sem á frystum hnökkum til Frakklands og á Bandaríkjunum.

Góð rekstrarafkoma hefur þýtt að arðurinn hefur verið nýttur til að fjárfesta frekar í fyrirtækinu. Arðurinn er einnig nýttur í nærsamfélaginu en Kaupfélag Fáskrúðsfirðinga á 4/5 hluta í Loðnuvinnslunni.

„Það vekur athygli að arðurinn verður eftir heimabyggð og er nýttur þar áfram. Við eigum að vera stolt af því og halda fyrritækinu áfram í eigum heimamanna,“ sagði Lars Gunnarsson, stjórnarformaður fyrirtækisins.

Þótt alltaf sé óvissa á mörkuðum virtist hann helst hafa áhyggjur af íslenskum stjórnmálum. „Stjórnmálaástandið er ekki gott en ég trúi ekki að nokkurt stjórnmálaafl vilji kollvarpa sjávarútveginum. Við getum litið björgum augum á framtíðina ef ytri aðstæður breytast ekki.“

Félagsmenn í Kaupfélaginu eru heimamenn á Fáskrúðsfirði. Þar hefur orðið 35% aukning í félagafjölda á tveimur árum. 26 nýir félagar gengu í það á nýafstöðum aðalfundi en þeir voru 50 í fyrra.

Félagið nýtti arðinn til að styrkja samfélagsverkefni á Fáskrúðsfirði, meðal annars þremur tækjum til heilsugæslunnar og hjartahnoðara í sjúkrabílinn.

„Heilsugæslan hér hefur verið olnbogabarn hjá HSA um nokkurt skeið, opnunartímar verið minnkaðir og okkur vísað annað. Nú er aftur komin af stað umræða um að taka af okkur sjúkrabílinn. Við þurfum að standa saman um að hafa þessa þjónustu,“ sagði Steinn Björgvin Jónasson, formaður stjórnar Kaupfélagsins.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.