„Ég tikkaði í nánast öll boxin“

Íris Lind Sævarsdóttir hefur verið ráðin fræðslufulltrúi Menningarmiðstöðvar Fljótsdalshéraðs og mun hún hefja störf um miðjan ágúst.



Um er að ræða nýja stöðu við miðstöðina til eins árs, en hlutverk fræðslufulltrúa er að vinna og þróa fræðsluverkefni fyrir miðstig grunnskólanna á Austurlandi í samræmi við aðalnámsskrá grunnskóla. Einnig að vinna í samstarfi við Menntaskólanum á Egilsstöðum og aðrar menntastofnanir á Austurlandi.

Íris Lind verður tengiliður Menningarmiðstöðvar Fljótsdalshéraðs (MMF) við menntastofnanir á landsvísu og tekur á móti skólum og öðrum hópum sem heimsækja sýningar og viðburði á vegum MMF.

Fræðslufulltrúi heyrir undir forstöðumann MMF og vinnur í samræmi við áherslur og hlutverk miðstöðvarinnar sem er fyrst og fremst að bjóða upp á og efla lista- og menningarstarf og mun Íris Lind taka þátt í daglegum rekstri MMF, svo sem umsjón með Sláturhúsi, Menningarsetri, vinnustofum og listamannaíbúð

Íris Lind er með B-Ed í myndlist frá Kennaraháskóla Íslands og MA-fine art frá Winchester School of Art, Southampton University.

Hún starfaði sem skrifstofustjóri Fræðslunets Austurlands frá 2001 til 2004, umsjónar-, sér- og myndlistarkennari við Egilsstaðaskóla 2004 til 2015. Síðasta vetur var hún brautarstjóri listabrautar Menntaskólans á Egilsstöðum ásamt því að sinna þar listkennslu.

Alls sóttu sex manns um stöðuna en tveir drógu umsóknina til baka.



Hlakkar til að þeytast um allar koppagrundir

„Þetta leggst bara mjög vel í mig og ég hlakka til að þeytast um allar koppagrundir og vinna með öllum þessum hressu krökkum á Austurlandi,“ sagði Íris Lind í samtali við Austurfrétt.

„Við munum vinna kennsluáælanir fyrir miðstig grunnskólana og einnig bjóða upp á námskeið í sviðslistum fyrir sama aldur. Við vinnum þetta eftir aðalnámskrá en eigum líklega eftir að setja okkar tvist á þetta.“

Aðspurð að því af hverju hún hafi sóst eftir stöðunni segir Íris Lind;

„Ég var í afleysingastöðu við menntaskólann sem var að klárast. Mig langaði að vera meira í myndlistinni og ætlaði mér að vera á vinnustofunni minni og gera eitthvað með. Þegar ég svo las þessa starfslýsingu ákvað ég að sækja um, en ég tikkaði í nánst öll boxin, að leiklistarmenntun undanskilinni, en ég var alltaf mikið í leiklistarstarfi þegar ég var yngri og hef reynsluna þaðan,“ segir Íris Lind.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.