Efling á starfsemi náttúrstofa í biðstöðu í hálft annað ár

Það hefur tekið Umhverfis- og auðlindaráðuneytið (UAR) eitt og hálft ár að koma á fót samráðsnefnd til að efla starfsemi náttúrustofa. Kristín Ágústsdóttir forstöðumaður Náttúrustofu Austurlands segir að þessi langi tími sé óheppilegur.

Orri Páll Jóhannsson aðstoðarmaður Guðmundar Inga Guðbrandssonar ráðherra segir að vissulega hafi þetta mál hafi dregist í alltof langan tíma en fyrir því séu ástæður. Nefna megi til dæmis þingsályktunartillögu frá Líneik Önnu Sævarsdóttur um náttúrustofur sem lögð var fram í september í fyrra á Alþingi og síðan samþykkt síðasta sumar. Einnig að ekki hafi verið gengið frá tilskipun allra fulltrúa í samstarfsnefndina fyrr en í apríl s.l.

Forsaga málsins er sú að að UAR undirritaði nýja samstarfssamninga til fimm ára við náttúrustofur landsins í fyrra. Í samningunum fólst að stofnuð verði samstarfsnefnd um verkefni og áherslur náttúrustofa sem miði að því að efla starfsemi þeirra. Í samningunum felst m.a. að haldnir séu tveir samráðsfundir á ári.

Kristín Ágústsdóttir er annar tveggja fulltrúa sem Samtök náttúrustofa hafa tilnefnt í fyrrgreinda nefnd. „Það var mikið fagnaðarefni að slíkir samráðsfundir væru hluti samningsins,“ segir Kristín. „Það er óviðunandi að enn hafi ekki verið haldinn neinn slíkur fundur um hálfu öðru ári eftir að samningurinn öðlaðist gildi, enda mikilvægt að efla starfsemi náttúrustofa.“

Stjórn Náttúrstofu Austurlands hefur tvívegis á þessu ári bókað um mikilvægi þess að samstarfsnefndin taki til starfa og hvatt UAR til að bregðast við. „Við höfum engar skýringar frá UAR um afhverju ekki hafi orðið af þessum fyrsta fundi nefndarinnar,“ segir Kristín, en ítrekar að samt sem áður skynji hún velvilja og skilning hjá ráðuneytinu í garð náttúrustofa.

Þingsályktun flækir málið

Orri Páll segir að eftir að Líneik Anna kom fram með þingsályktun sína um náttúrustofur hafi verið ákveðið að bíða og sjá til hvort ekki mætti samhæfa það sem felst í ályktuninni við starfsemi samstarfsnefndarinnar. Það er leggja saman starf nefndarinnar og starfshópsins sem getið er í ályktuninni.

Í þingsályktuninni segir m.a. að alþingi álykti að fela umhverfis- og auðlindaráðherra að koma á fót starfshópi til að meta reynsluna af starfi náttúrustofa og kanna hvort hagkvæmt sé að náttúrustofur taki formlega að sér fleiri svæðisbundin verkefni en þær hafa nú með höndum.

Orri Páll nefnir að fyrir utan fulltrúa náttúrustofa í nefndinni eigi þar einnig sæti m.a. fulltrúar frá Samtökum íslenskra sveitarfélaga, Náttúrufræðistofnun og Umhverfisstofnun. Ekki hafi verið kallað eftir tilnefningum þeirra fulltrúa fyrr en í febrúar s.l. og þær ekki allar borist fyrr en í apríl.

„Það má einnig nefna að í ár hafa aðstæður í þjóðfélaginu ekki verið með eðlilegum hætti sem tafið hefur málið,“ segir Orri Páll. „Þrátt fyrir að þetta hafi tekið alltof of langan tíma er ljóst að umhverfis- og auðlindaráðherra er mjög umhugað um þessi mál og vilji hans stendur til að efla starfsemi náttúrustofa ennfrekar í framtíðinni.“

Mynd: Náttúrustofa Austurlands

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.